Meinlaust?

Jafnréttisstofa hleypir í dag af stokkunum vitundarvakningunni Meinlaust?

Vitundarvakningunni er ætlað að vekja athygli á birtingarmyndum kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni í samfélaginu og fá fólk til að opna augun fyrir sambandi á milli slíkrar hegðunar og hugmynda um karlmennsku, mörk og samþykki.

Kynbundin áreitni er með útbreiddustu vandamálum heims, hún á sér margar birtingarmyndir og hefur víðtækar afleiðingar fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið allt. Í vitundarvakningunni er áhersla lögð á hegðun sem mörg telja saklausa og er ætlunin að draga fram samfélagslegt mynstur sem er alls ekki eins meinlaust og halda mætti.

Í vitundarvakningunni eru sagðar sögur sem byggðar eru á raunverulegum frásögnum fólks úr íslensku samfélagi í formi myndasagna. Áhersla er lögð á samfélagsmiðla þar sem fólk er hvatt til að taka þátt í umræðunni og deila eigin reynslu undir myllumerkinu #meinlaust eða með því að merkja @meinlaust.

Vitundarvakningin er unnin í samræmi við Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2020-2023 og er fjármögnuð af forsætisráðuneytinu.