Menntaskólinn í Kópavogi hlaut viðurkenningu

Menntaskólinn í Kópavogi hlaut jafnréttisviðurkenningu jafnréttisnefndar Kópavogsbæjar árið 2006. Margrét Friðriksdóttir skólameistari veitti viðurkenningunni viðtöku úr hendi Sigríðar Konráðsdóttur.

Menntaskólinn í Kópavogi, sem nú hlýtur viðurkenningu jafnréttisnefndar hefur haft jafnréttisáætlun frá árinu 2000 og var hún endurskoðuð árið 2004. Þar er meðal annars lögð áhersla á samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs, launajafnrétti og jafnrétti kynja við úthlutun verkefna og skipan í nefndir, ráð og stjórnir. Þetta gerir stjórnendur meðvitaðri í ákvarðanatöku og hjálpar til við að jafna hlut kynja á ýmsum sviðum, bæði meðal starfsfólks og nemenda og fá þannig fjölbreytt sjónarmið sem nýtast í skólastarfinu.

Á menntastofnunum hvíla þær skyldur að mæta fólki af báðum kynjum í leik og starfi, ekki síst þar sem ungmenni sækja fyrirmyndir sínar oft til starfsfólks skóla. Stjórnendur skólans eru Margrét Friðriksdóttir skólameistari og Helgi Kristjánsson aðstoðarskólameistari.

Námsleiðir í Menntaskólanum í Kópavogi eru mjög fjölbreyttar því auk hefðbundins bóknáms er þar hægt að leggja stund á ferðamálanám, matvælanám, og starfsnám ýmis konar. Þar eru námsleiðir fyrir fólk sem er á leið á vinnumarkað eftir hlé, nám með vinnu og fjarnám í sumum greinum.

Undanfarin tvö ár hefur Menntaskólinn í Kópavogi leitt Evrópskt jafnréttisverkefni undir stjórn Garðars Gíslasonar félagsfræðikennara. Nemendum býðst þátttaka með valáfanga. Kannað er hvað hefur áhrif og mótar kynímyndir ungs fólks, en það er misjafnt eftir löndum og menningarheimum. Þátttakendur hafa unnið ýmis verkefni saman, svo sem að snúa kynímyndum við í ævintýrum og tónlistarmyndböndum. Sjá nánar:

http://www.simnet.is/japan/equal_2_equal.htm

Jafnréttisnefnd var einhuga um að Menntaskólinn í Kópavogi skyldi hljóta jafnréttisviðurkenninguna að þessu sinni.

Samkvæmt Jafnréttisstefnu Kópavogsbæjar veitir Jafnréttisnefnd ár hvert viðurkenningu þeirri stofnun, fyrirtæki, nefnd eða ráði Kópavogsbæjar, einstaklingi, félagi, fyrirtæki eða stofnun sem hefur að mati nefndarinnar staðið sig best undangengið ár við framgang jafnréttismála í Kópavogi.

Jafnréttisnefnd Kópavogsbæjar veitir nú jafnréttisviðurkenningu í fimmta sinn.

Auglýst er eftir tilnefningum árlega og hefur þeim farið fjölgandi og bárust fimm tilnefningar að þessu sinni. Tilnefnd voru:

1. Hestamannafélagið Gustur í Kópavogi

2. Vefsíðan www.pabbar.is

3. Menntaskólinn í Kópavogi http://www.mk.is/default/i/2/?id=010604&t=s010604s www.mk.is

4. Kópavogspósturinn http://www.kp.is/

5. Guðrún Jónsdóttir, Stígamótum