- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa og Mannréttindaskrifstofa Íslands hafa á undanförnum mánuðum boðið upp á námskeið um jafnrétti og bann við mismunun. Námskeiðin hafa staðið stofnunum, fyrirtækjum, félagasamtökum og sveitarfélögum til boða án endurgjalds þar sem þau eru hluti af Evrópuverkefni sem stutt er að Progress-sjóði Evrópusambandsins.
Á námskeiðunum er fjallað um helstu skyldur stofnana og fyrirtækja með tilliti til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr.10/2008. Einnig er fjallað um tvær tilskipanir Evrópusambandsins um bann við mismunun en þær fjalla um bann við mismunun gagnvart tilteknum hópum. Um er að ræða tilskipun nr. 2000/43/EB, um innleiðingu meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis, (e. racial or ethnic origin) og tilskipun nr. 2000/78/EB, um innleiðingu meginreglunnar um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi (e. employment and occupation). Tilskipun nr. 2000/78/EB kveður á um bann við mismunun á grundvelli trúar eða trúarskoðana, örorku/fötlunar, aldurs eða kynhneigðar, en gildissvið hennar takmarkast við atriði er tengjast vinnumarkaðnum.
Íslendingar munu innleiða ofangreindar tilskipanir á næstu árum og því hefur sú innleiðing verið til skoðunar hér á landi undanfarin ár.
Þátttaka á námskeiðunum hefur verið góð og almennar umræður hafa skapast um kynjajafnrétti og helstu áhrif þess að innleiða mismununartilskipanir Evrópusambandsins.