- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Hópur sem kallar sig Neyðarstjórn kvenna hefur boðið öllum þingmönnum og fulltrúum í Jafnréttisráði á námskeið í samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða. Í bréfi hópsins til þingmanna og Jafnréttisráðs segir að mikilvægt sé að endurreisn landsins eftir hrun byggi á þeim alþjóðasamþykktum sem kveða á um að kynjasjónarmið verði höfð að leiðarljósi við alla stefnumótun. Í boðsbréfinu kemur fram að neyðarstjórnin samanstandi af tæplega 1500 íslenskum konum, sem vilji koma að mótun samfélagsins á ögurstundu. Námskeiðið mun fara fram á Hallveigarstöðum á morgun, föstudaginn 7. nóvember, en þann dag átti lögbundið jafnréttisþing að fara fram. Þinginu var frestað fram í janúar, eins og áður hefur komið fram.
Þorgerður Einarsdóttir, dósent í kynjafræðum mun kynna samþættingu kynjasjónarmiða á námskeiðinu. Lilja Mósesdóttir, doktor í hagfræði, ræðir um kynjaða hagstjórn í kreppu og þær Silja Bára Ómarsdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur og Lilja Hjartardóttir, stjórnmálafræðingur og doktorsnemi í kynjafræðum, fjalla um þá spurningu hvort ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 eigi við á Íslandi núna. Ályktunin fjallar um nauðsyn aðkomu kvenna að því að skapa frið og öryggi í aðildarríkjum SÞ og alþjóðasamfélaginu.
Boðsbréf til þingmanna á námskeiðið má sjá hér.