Ný norræn samstarfsáætlun í jafnréttismálum

Jafnréttisráðherrar norrænu ríkjanna hafa samþykkt samstarfsáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2011–2014 sem ber heitið Jafnrétti skapar sjálfbært þjóðfélag.
Í áætluninni er sérstaklega fjallað um nauðsyn þess að karlmenn taki þátt í jafnréttisstarfi og umræðum um jafnréttismál og að tekið sé tillit til jafnréttissjónarmiða á öllum sviðum samfélagsins. Með þetta að leiðarljósi verður áhersla á virka þátttöku karla og drengja í jafnréttisstarfi og samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða fléttuð inn í öll verkefni sem kveðið er á um í samstarfsáætluninni.
Norrænt jafnréttisstarf er afar víðtækt og því hefur verið nauðsynlegt að þrengja og skerpa áherslur og aðferðir. Almenn forgangsmál í norrænu jafnréttisstarfi munu snúast um jafnrétti á vinnumarkaði, jafnrétti og menntun, jafnrétti og uppruna og leiðir til að útrýma kynbundnu ofbeldi.

Í norrænu jafnréttissamstarfi við Eystrasaltsríkin verður áhersla lögð á jafnrétti á vinnumarkaði, jafnréttisfræðslu, jafnrétti og jöfnuð og jafnrétti í fjölmiðlun.

Forgangsmál í norrænu jafnréttissamstarfi við Norðvestur-Rússland varða jafnréttisfræðslu og verkefni sem snúa að því að útrýma kynbundu ofbeldi.


Samstarfsáætlunina er hægt að nálgast á slóðinni:

http://www.norden.org/no/publikasjoner/publikasjoner/2010-783