- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Framfylgja þarf lögum um jafnrétti kynja í menntakerfinu og samþætta jafnréttissjónarmið í kennslu á öllum skólastigum. Þetta kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur, menntamálaráðherra og samstarfsráðherra, þegar hún setti norrænu ráðstefnuna Jafnréttisfræðsla í skólum sem haldin var á Grand Hóteli í Reykjavík dagana 21.-22. september.Fræðimenn frá Norðurlöndum og víðar, skólafólk, embættismenn og stjórnmálamenn voru saman komnir á ráðstefnunni, þar sem m.a. voru kynnt ýmis norræn verkefni í jafnréttisfræðslu sem þykja hafa tekist vel. Mike Younger, yfirmaður menntavísindasviðs Gambridge-háskóla og einn stjórnanda verkefnisins Bætum árangur drengja færði sterk rök fyrir því að sögur um slaka frammistöðu drengja í skóla væru stórlega ýktar.
Hann sagði kynið ekki vera fasta stærð og því ekki ráðlegt að breyta kennsluháttum til þess að koma til móts við einhverja karlmennskuímynd, með því skapaðist hætta á að drengir sem ekki féllu inn í staðalímyndir um karlmennska yrðu settir hjá í kennslustofunni.
Önnur goðsögn var einnig slegin af á ráðstefnunni, sú um að það væri vandamál fyrir drengi hversu margar konur væru í menntakerfinu. Hins vegar virðist það staðreynd að kennarar koma ólíkt fram við stúlkur og drengi og gera ólíkar kröfur til þeirra eftir kyni.
Aðrir aðalfyrirlesarar en Mike Young voru Eva Nyström frá háskólanum í Umeå í Svíþjóð og Dr. Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor við háskólann á Akureyri. Þau vörpuðu í erindum sínum ljósi á norrænar rannsóknir á kyni og jafnrétti í skólakerfinu og árangur af ýmsum átaksverkefnum í skólastarfi.
Þá fjölluðu fyrirlesarar um kynjafræði og kennaramenntun, kynbundið náms- og starfsval og kynjaskiptingu í skólastarfi sem leið til jafnréttis. Einnig voru kynnt ýmis jafnréttisverkefni í norrænum leik- og grunnskólum íslenskir skólar sýndu afrakstur af slíkum verkefnum á ráðstefnunni.
Ráðstefnan var skipulögð í samstarfi menntamálaráðuneytisins, félagsmálaráðuneytisins og Jafnréttisstofu