- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Rannsóknin á launamun kynjanna í Svíþjóð hefur leitt í ljós að fjórir af fimm atvinnurekendum uppfylltu ekki lög um jöfn laun. Í kjölfar verkefnisins hafa nú 5200 launþegar fengið laun sín hækkuð í samræmi við lög. Verkefnið nefnist Miljongranskningen og er stærsta verkefni sem umboðsmaður jafnréttismála þar í landi hefur staðið fyrir.Rannsóknin var framkvæmd þannig að laun á 568 vinnustöðum voru skoðuð með aðferð sem fólst í kortlagningu launa, en sænsk löggjöf kveður á um að atvinnurekendur eigi að kortleggja laun starfsmanna sinna einu sinni á ári. Úttektin hefur leitt í ljós að fjórir af hverjum fimm atvinnurekendum uppfylltu ekki þær kröfur um jöfn laun sem lögin kveða á um. Einnig hefur komið í ljós að þar sem leiðbeiningar um kortlagningu launa höfðu verið notaðar rétt, skiluðu þær árangri.
Við lok verkefnisins höfðu 44% atvinnurekendanna fundið óútskýrðan launamun og að minnsta kosti 5246 starfsmenn hafa fengið laun sín hækkuð, en þar voru 90% konur.
Með kortlagningunni hefur einnig verið hægt að varpa ljósi á aðra þætti launamunar kynjanna. Sem dæmi um það má nefna kynbundna vinnustaði, að karlar fá oftar krefjandi verkefni en konur og að konur missa frekar af reynslu á vinnumarkaði en karlar vegna meiri ábyrgðar á heimili og börnum.
Anne-Marie Bergström, umboðsmaður jafnréttismála, leggur áherslu á að atvinnurekendur verði að vera með í samstarfinu um að minka launamuninn. Sem dæmi nefnir hún að atvinnurekendur verða að reyna að jafna kynjahlutföllin í öllum störfum og stöðum á vinnustaðnum. Hvetja feður til þess að fara í fæðingarorlof og sjá til þess að mæður í fæðingarorlofi dragist ekki aftur úr í launaþróun og fái tækifæri til starfsframa þrátt fyrir tímabundið hlé á starfi.
Verkefnið hófst árið 2006 og í upphafi voru 1245 stofnanir og fyrirtæki, með milljón starfsmenn í heildina, þátttakendur í því. Embætti umboðsmanns breytist núna um áramótin og löggjöfin með og því er verkefnið gert upp núna. Hingað til hefur umboðsmaður farið í gegnum 568 vinnustaði með 750.000 starfsmenn.
Lokaskýrsla um Miljongranskningen
Grein eftir Anne-Marie Bergström