Nú í sumar fékk Jafnréttisstofa styrk úr Jafnréttissjóði Íslands til verkefnisins Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir. Markmið verkefnisins er að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla, sbr. 4. gr. jafnréttislaga.
Miðvikudaginn 12. október, kynnti Arnfríður Aðalsteinsdóttir, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, og Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir, sviðsforseti heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri, verkefnið í tengslum við jafnréttisdaga háskólanna.
Verkefnið, sem er bundið við Norðurland eystra, er samstarfsverkefni skóla, vinnustaða, fagfélaga, stéttarfélaga og annarra sem láta sig jafnréttismál varða. Nú þegar hefur Háskólinn á Akureyri staðfest þátttöku ásamt Verkmenntaskólanum á Akureyri og Oddeyrarskóla. Öldrunarheimilin á Akureyri koma inn sem hefðbundinn kvennavinnustaður og hefðbundinn karlavinnustaður mun væntanlega staðfesta þátttöku á næstu dögum. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga ætlar að vera með og von er á fleiri fagfélögum í hópinn. Jafnréttisstofa heldur utan um verkefnið og sinnir eftirfylgni, fræðslu og ráðgjöf við þátttakendur.
Megin áherslur verkefnisins er að: a) Stuðla að jafnrétti kynjanna í menntun, starfsþjálfun og ráðgjöf. b) Brjóta upp kynbundnar staðalmyndir í náms- og starfsvali. c) Vekja áhuga kvenna á hefðbundnum karlastörfum. d) Vekja áhuga karla á hefðbundnum kvennastörfum.
Síðustu vikur hafa verið haldnir undirbúnings- og kynningarfundir með hverjum þátttakanda fyrir sig. Í framhaldi af þeim fundum setja þátttakendur sér aðgerðabundin markmið með vísan í megin áherslur verkefnisins. Markmiðin verða síðan rædd og kynnt öðrum þátttakendum á fyrsta fræðslu- og vinnufundi verkefnisins nú í nóvember.
Verkefnið Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir, á að sameina kraftana. Í stað þess að þátttakendur vinni hver í sínu horni að markmiðinu leggjast allir á árarnar og styðja hvern annan. Vonandi auðveldar það vinnuna og kemur okkur lengra í átt til aukins kynjajafnréttis.
Við hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri eru aðeins 5% nemenda karlar. Mikilvægt er að vekja áhuga karla á hefðbundnum kvennastörfum. Það þarf að auka hlut karla í hjúkrun. Markmiðið er alveg augljóst en leiðirnar til þess eru ekki eins ljósar segir Eydís Kr. Sveinbjarnardóttir sem tók nýverið við embætti forseta heilbrigðisvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Kannski slagorðið verði „Strákar hjúkra“.
Tvisvar á ári, haust og vor, hittast þátttakendur á sameiginlegum fræðslu- og vinnufundum. Auk þess verða mánaðarlegir fundir með hverjum þátttakanda þar sem áhersla er lögð á persónulegan stuðning og ráðgjöf sem miðast við þarfir hvers og eins. Stuðningurinn getur m.a. falist í heimsóknum á vinnustaðinn eða í skólann, ráðgjöf og fræðslu fyrir starfsmenn, nemendur eða aðra sem koma að eða tengjast verkefninu.
Verkefninu lýkur haustið 2018 með opnu málþingi þar sem þátttakendur segja frá verkefnum sínum, miðla reynslu og gagnlegum aðferðum í átt til aukins kynjajafnréttis. Í framhaldinu munu þátttakendur gerast mentorar annarra vinnustaða, skóla og félaga með stuðningi Jafnréttisstofu.
Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir er tilraunaverkefni þar sem skóli og atvinnulíf vinna saman að því að styrkja sjálfsmynd ungs fólks svo það eigi auðveldara með að velja sér nám- og störf óháð kyni.