- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Hinn 8. mars á alþjóðlegum baráttudegi kvenna er boðað til stofnfundar nýs félags, sem hefur fengið nafnið Rótin – félag um málefni kvenna með áfengis- og fíknivanda. Markmið Rótarinnar eru að stofna til umræðu um konur, fíkn, áföll og ofbeldi og huga að sérstökum meðferðarúrræðum fyrir konur. Félagið vill að komið sé á samstarfi á milli stofnana, samtaka og annarra fagaðila sem fást við vímuefnameðferð, ofbeldi og úrvinnslu áfalla. Félagið vill beita sér fyrir öflun upplýsinga og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna um þessi málefni konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, standa að ráðstefnum og námskeiðum, eitt eða í samstarfið við önnur félög, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.Fundurinn verður haldinn í Kvennaheimilinu að Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík, kl. 17.30.
Þær konur sem standa að stofnun félagsins stofnuðu í september 2012 Kvenfélag SÁÁ, sem hafði sömu markmið. Þar sem því félagi var ekki lengur vært innan SÁÁ ákvað ráð þess að boða til slitafundar og verður sá fundur haldinn á sama stað kl. 17.00, föstudaginn 8. mars 2013.
Ástæður fyrir slitum Kvenfélags SÁÁ eru einkum samstarfserfiðleikar við formann SÁÁ og síendurteknar ásakanir um að Kvenfélagið hafi unnið gegn SÁÁ og starfað í andstöðu við fagfólk og veikt þannig starfsemi samtakanna. Þessar ásakanir eru rakalausar og hefur ráð Kvenfélagsins engin svör fengið við beiðni um rökstuðning, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið óskað eftir honum.
Þó að starfstími Kvenfélag SÁÁ hafi ekki verið langur, starfaði félagið nógu lengi til að sannfæra okkur upphafskonur þess um nauðsyn þess að halda úti félagi sem beitir sér í málefnum kvenna með áfengis- og vímuefnavanda. Þar sem enginn áhugi virðist vera á að skoða málefni þessa hóps með opnum huga innan SÁÁ var ekki annar kostur í stöðunni en að stofna til nýs félags.
Félagið er komið með síðu á Facebook (https://www.facebook.com/rotin.felag) og netfang rotin.felag@gmail.com.
Í undirbúningshópnum sitja: Árdís Þórðardóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Gunnhildur Bragadóttir, Ilmur Kristjánsdóttir, Katrín Björk Eyjólfsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Þórlaug Sveinsdóttir.