- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Ný samanburðarrannsókn á fæðingarorlofi og umönnunarstefnu Norðurlandaþjóðanna verður kynnt á jafnréttisþinginu 2011 sem haldið verður á Nordica Hotel í Reykjavík 4. febrúar. Rannsóknin hófst árið 2009 að frumkvæði Íslands sem það ár fór með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Þetta var stærsta verkefni norræna jafnréttissamstarfsins árið 2009 og var fjármagnað af ráðherranefndinni. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið gefnar út á bók sem skrifuð var í samstarfi fræðimanna á öllum Norðurlöndunum. Ritstjórar voru Ingólfur V. Gíslason og Guðný Björk Eydal.
TemaNord gefur út bókina sem heitir Föräldraledighet, omsorgspolitik och jämställdhet i Norden. Í bókinni er fjallað um samspil nokkurra þátta, foreldraorlofs, umhyggjustefnu gagnvart börnum, líðanar og stöðu barna og jafnréttis kynja.
Norðurlöndin eru öll í fararbroddi ríkja heims þegar kemur að jafnrétti kynja. Þau hafa einnig verið í forystuhlutverki varðandi aukin og bætt réttindi barna og möguleika beggja foreldra til að vera með börnum sínum við upphaf lífsgöngu þeirra. Við og við koma þó fram raddir um að hagsmunir barna hafi með einhverjum hætti þurft að víkja í ákafanum til að jafna stöðu kynjanna.
Í bókinni rekja höfundar þróun laga um fæðingarorlof á Norðurlöndunum og hvernig það hefur verið nýtt af foreldrum. Þá er fjallað um umönnunarstefnu gagnvart börnum á Norðurlöndum og vakin athygli á því hvað hún er í reynd fjölbreytt þrátt fyrir svipuð markmið. Sérstakur kafli er helgaður stöðu barna og raktar þær rannsóknir sem aðgengilegar eru varðandi líðan þeirra. Loks er fjallað um pólitísk átök um umönnunarstefnur og vakin athygli á því hvernig áherslur þar hafa tilhneigingu til að víkja frá hefðbundinni skiptingu í hægri og vinstri flokka.
Ingólfur V. Gíslason mun fjalla um niðurstöður rannsóknarinnar á Jafnréttisþinginu sem haldið verður á Nordica Hotel föstudaginn 4. febrúar næstkomandi.
Bókin er aðgengileg á slóðinni: http://www.norden.org/en/publications/publications/2010-595