- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Sterkari saman (e. Strong together) er samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og félagasamtakanna Kongres Kobiet (e. The Congress of Women) frá Póllandi. Markmið samstarfsins er tvíþætt. Annars vegar að auka þekkingu á birtingarmyndum kynjanna í stjórnmálum og fjölmiðlum og hins vegar að stuðla að aukinni sérfræðikunnáttu á kynjajafnrétti almennt með því meðal annars að kynna og nota verkfæri kynjasamþættingar.
Einn liður í verkefninu er tveggja daga vinnustofa Jafnréttisstofu fyrir pólska sérfræðinga sem haldin var dagana 28. og 29. janúar sl. í Varsjá. Það voru þær Ingibjörg Elíasdóttir og Bryndís Elfa Valdemarsdóttir sem leiddu vinnustofuna fyrir Jafnréttisstofu.
Þátttakendur á námskeiðinu komu frá stofnunum, háskólum og félagasamtökum. Vinnustofan hófst á kynningu á stöðu jafnréttismála á Íslandi, lagalegu umhverfi og áherslum. Í framhaldinu var síðan lögð áhersla á miðlun þekkingar og þeirra aðferða sem stuðst er við í jafnréttisstarfi á Íslandi. Mikil og góð umræða skapaðist meðal þátttakenda sem virtust afar ánægðir með að fá tækifæri til að kynnast jafnréttismálum á Íslandi og að sama skapi fengu þær Ingibjörg og Bryndís innsýn í stöðu mála í Póllandi, sem er ekki síst mikilvægt í samstarfi sem þessu.