- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Á félagsvísinda- og jafnréttistorgi í dag, miðvikudaginn 19. október mun Tryggvi Hallgrímsson sérfræðingur á Jafnréttisstofu fjalla um skyldur sveitarfélaga til að vinna að jafnréttismálum. Torgið hefst kl. 12.00 í stofu N101, Sólborg v/Norðurslóð. Allir velkomnir.
Sveitarfélög sem vettvangur jafnréttisvinnu.
Í jafnréttisslögunum er kveðið á um ríkar skyldur sveitarfélaga til að vinna að jafnréttismálum. Í erindi sínu á félagsvísinda- og jafnréttistorgi fjallar Tryggvi Hallgrímsson um þessar skyldur sveitarfélaganna og lýsir stöðu jafnréttismála eftir sveitarstjórnarkosningar 2010. Þá mun Tryggvi kynna vinnu Jafnréttisstofu við úttekt á stöðu jafnréttismála í sveitarfélögum. Hann mun leitast við að svara því á hvaða sviðum sveitar-, bæjar- og borgarstjórnir geti haft áhrif til að jafna stöðu karla og kvenna og hvernig lýsing á stöðu jafnréttis getur undirstrikað mikilvægi þess að sveitarfélög séu vakandi fyrir áhrifum jafnréttis á búsetu.
Samkvæmt jafnréttislögunum skulu sveitarfélög þróa og leggja mat á stefnumótunarferli þannig að sjónarhorn kynjajafnréttis sé á öllum sviðum fléttað inn í stefnumótun og ákvarðanir. Þá skulu jafnréttisáætlanir lagðar fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar.
Tryggvi Hallgrímsson er félagsfræðingur og hefur MA gráðu í skipulagsheildum og stjórnun frá Háskólanum í Tromsö í Noregi. Hann hefur starfað sem kennari við Háskólann á Akureyri og sem sérfræðingur á Jafnréttisstofu frá árinu 2008.