- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Rúmlega 75% sveitarfélaga hafa ekki sett sér fullgildar jafnréttisáætlanir og uppfylla því ekki að fullu kröfur laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt lögunum skulu jafnréttisáætlanir lagðar fram til samþykktar í viðkomandi sveitarstjórn eigi síðar en ári eftir sveitarstjórnarkosningar. Flest þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa fullgilda jafnréttisáætlun eiga að ljúka jafnlaunavottun á þessu ári.
Um miðjan mars kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum frá 72 sveitarfélögum. Nú hálfu ári síðar hafa 54 sveitarfélög brugðist við erindinu þar af 17 skilað fullgildri áætlun. Átján sveitarfélög hafa ekki brugðist við erindi Jafnréttisstofu þrátt fyrir ítrekanir.
Sveitarfélög eru í góðri stöðu til að vinna að jafnrétti í samfélaginu bæði vegna nálægðar við íbúana og þess þríþætta hlutverks sem þau hafa, sem stjórnvald, sem vinnuveitandi og sem þjónustuveitandi. Virk jafnréttisáætlun þar sem unnið er að jafnrétti á öllum þessum sviðum stuðlar að réttlátara og eftirsóknarverðara samfélag fyrir alla.
Leiðbeiningarhlutverk Jafnréttisstofu
Jafnréttisáætlun með skýrum markmiðum og tímasettri aðgerðaáætlun þar sem ábyrgð og eftirfylgni er tryggð gegnir veigamiklu hlutverki þegar unnið er að jafnrétti. Skortur á þekkingu getur hins vegar verið hamlandi. Sveitarfélögum er bent á að alltaf er hægt að leita til Jafnréttisstofu eftir fræðslu og ráðgjöf.