- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Heilbrigðisráðuneytið hefur tilnefnt þrjú verkefni sem sín fyrstu tilraunaverkefni til þess að svara óskum um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Verkefnin fela í sér að biðlistar eftir hjartaþræðingu og liðskiptaaðgerðum og forvarna- og gæðastyrkir verða skoðaðir út frá sjónarhorni kynjajafnréttis.
Á Landspítala hefur verið ákveðið að skoða kyn, aldur og biðtíma þeirra sem eru á biðlistum hjá spítalanum eftir hjartaþræðingu og liðskiptaaðgerðum. Þetta verður gert út frá gögnum sem liggja fyrir og unnt er að nýta við vinnuna.
Hjá Lýðheilsustöð verða greindar umsóknir og úthlutun úr Forvarnasjóði, sem styrkir verkefni á sviði áfengis- og vímuvarna. Umsóknarfrestur rann út 5. mars fyrir árið 2010, en til stendur að greina umsóknir og úthlutun úr Forvarnasjóði í ár eftir verkefnaflokkum, kyni og fjárhæð. Jafnframt er stefnt að því að fylgja verkefninu lengra og reyna að meta hvernig styrkirnir nýtast kynjunum.
Hjá heilbrigðisráðuneytinu verða skoðaðar umsóknir og úthlutun svonefndra gæðastyrkja. Ráðuneytið auglýsir árlega eftir umsóknum vegna þeirra en í ár var umsóknarfrestur til 26. mars. Úthlutunarnefnd, skipuð fulltrúum heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknisembættisins skoðar umsóknir og gerir tillögur um styrkveitingar til ráðherra. Tilgangur styrkveitinganna er að stuðla að umbótastarfi, nýbreytni og auknum gæðum í heilbrigðisþjónustunni. Í verkefninu á að greina umsóknir og úthlutun eftir kyni. Þá verður einnig skoðað hvort mögulegt sé að meta áhrif styrkjanna á kynin.
Áætlun vegna verkefnanna á að liggja fyrir þegar fjárlagafrumvarp ársins 2011 verður kynnt, en verkefnunum verður hrint í framkvæmd á næsta fjárlagaári.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs frá í fyrravor, segir að hafa skuli kynjaða hagstjórn að leiðarljósi við fjárlagagerð og efnahagsstjórn. Vinnuhópur fjármálaráðuneytisins vegna kynjaðrar hagstjórnar óskaði eftir því að afmörkuð verkefni yrðu valin til verkefnisins til þess að byrja með.
Kynjuð hagstjórn felur í sér að beita samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða á fjárlagaferlið. Það þýðir að kynjað mat er unnið á fjárlögum, sjónarmið kynjajafnréttis eru tekin inn á öllum stigum fjárlagaferlisins og innheimtur/útgjöld eru endurskoðuð með það að markmiði að auka á jafnfrétti kynjanna.