- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Starfshópur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um aðgerðir til að jafna betur stöðu kynja í sveitarstjórnum leggur meðal annars til að ráðuneytið skipuleggi hvatningarátak, boði til samráðs við stjórnmálaflokka um fjölgun kvenna og að framboðslisti verði aðeins heimilaður að hlutfall kynja sé jafnt. Sigrún Jónsdóttir, formaður hópsins, afhenti Kristjáni L. Möller greinargerð hópsins nýverið og sagði hann næsta skref að fara yfir tillögurnar og hrinda í framkvæmd þeim ábendingum sem unnt þykir.
Í greinargerð hópsins eru settar fram tillögur um mögulegar leiðir og aðgerðir af hálfu stjórnvalda sem verða mættu til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum. Fjallað er um nýlegar aðgerðir í Danmörku og Noregi. Þá er fjallað um kynjakvóta, einkynja sveitarstjórnir og áhrif persónukjörs. Einnig er kafli í skýrslunni um starfsumhverfi sveitarstjórnarfulltrúa og settar eru fram hugmyndir um mögulegar aðgerðir af hálfu stjórnmálaflokka. Í viðauka eru tölfræðilegar upplýsingar um hlutföll karla og kvenna í sveitarstjórnum.
Meðal tillagna starfshópsins um mögulegar aðgerðir er að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið skipuleggi kynningarstarf og hvatningarátak fyrir því að konur til jafns við karla taki þátt í störfum sveitarstjórna, að ráðuneytið boði til samráðs með forystufólki úr stjórnmálaflokkunum til að hvetja til jafnræðis meðal kynjanna í efstu sætum framboðslista og að haldin verði námskeið á vegum ráðuneytisins fyrir konur um þátttöku í sveitarstjórnarstarfi.
Þá er bent á þann möguleika að ekki verði heimilt að setja fram framboðslista nema jafnt hlutfall sé milli kynja. Einnig er bent á að taka þurfi tillit til fjölskyldufólks við skipulagningu funda og að kynna þurfi starf í sveitarstjórn með jákvæðum hætti, til dæmis fyrir ungu fólki í sveitarfélögum. Loks er lagt til að ráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga skipi starfshóp til að kanna starfsumhverfi og starfskjör kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn.
Í starfshópnum voru auk Sigrúnar Jónsdóttur Þórunn Kolbeins Matthíasdóttir, fulltrúi Frjálslynda flokksins, Herdís Þórðardóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins, Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, og Unnur Brá Kolbeinsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Þá skipaði ráðherra einnig í starfshópinn Halldór V. Kristjánsson, sérfræðing hjá Jöfnunarsjóðis sveitarfélaga. Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur á skrifstofu sveitarstjórnarmála, starfaði einnig með hópnum. Félags- og tryggingamálaráðuneytið tilnefndi Inga Val Jóhannsson deildarstjóra sem tengilið og Jafnréttisstofa tilnefndi Bergljótu Þrastardóttur sérfræðing sem tengilið sinn.
Greinargerð starfshópsins hefur verið send sveitarstjórnum og ráðherrum dómsmála og félagsmála.
Greinargerð starfshóps um aðgerðir til að jafna betur stöðu kvenna í sveitarstjórnum