Undirritun Evrópusáttmála um jafna stöðu karla og kvenna í sveitarfélögum og héruðum

Eitt sveitarfélag bætist í hóp þeirra sveitarfélaga sem hafa undirritað Evrópusáttmála um jafna stöðu karla og kvenna í sveitarfélögum og héruðum.Nú hefur Norðurþing undirritað Evrópusáttmála um jafna stöðu karla og kvenna í sveitarfélögum og héruðum en áður höfðu Akureyrarbær, Mosfellsbær, Akranes og Hafnarfjarðarbær undirritað sáttmálann.

Evrópusáttmálinn spannar öll svið sveitarfélaga þar sem þörf er talin á jafnréttisaðgerðum, frá félagsþjónustu til skipulagsmála. Hann býður upp á aðferðir fyrir sveitarfélög til að ná fram jafnrétti í reynd. Lögð er áhersla á samþættingu kynjasjónarmiða á öllum stigum og sviðum og mati á áhrifum stefnumótunar og ákvörðunartöku á hvort kynið fyrir sig. Tryggja á jafnan aðgang kynjanna að ákvörðunartöku og þjónustu sem taki mið af þörfum bæði karla og kvenna. Mælt er fyrir um aðgerðir gegn staðalímyndum og fræðslu til starfsfólks. Taka á sérstaklega á margfaldri mismunun, sem fyrir utan kyn getur átt rót sína að rekja til kynþáttar, kynhneigðar, aldurs o.fl. Sveitarfélög skulu beita sér fyrir því að samstarfsaðilar þeirra virði jafnréttissjónarmið, svo sem í samningum um kaup á vörum og þjónustu og í samstarfssamningum við félagasamtök.

Sveitarfélög skulu innan tveggja ára hafa gert aðgerðaráætlun um hvernig þau muni framkvæma ákvæði samningsins. Þau hafa svigrúm til að forgangsraða markmiðum og setja sér tímaramma. Jafnréttisstofa mun aðstoða sveitarfélög við innleiðingu sáttmálans. Þau munu einnig njóta stuðnings frá Evrópusamtökum sveitarfélaga og öðrum aðildarsveitarfélögum en rúmlega 750 sveitarfélög og héruð í 21 landi í Evrópu hafa undirritað sáttmálann.

Sáttmálinn

Kynning á Evrópusáttmálanum