- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þann 19. júní var styrkjum úr Jafnréttissjóði Íslands úthlutað við hátíðlega athöfn á Hótel Borg. Jafnréttisstofa er samstarfsaðili í tveimur verkefnefnum sem hlutu styrk.
Annað verkefnið heitir „Konur upp á dekk!“ og er samstarfsverkefni AkureyrarAkademíunnar, Starfsgreinasambandsins, Jafnréttisstofu og JCI Sprota. Í janúar 2018 stóðu AkureyrarAkademían, Jafnréttisstofa og JCI Sproti fyrir námskeiðinu „Konur upp á dekk! Hagnýt fræðsla og samræðuþing um stjórnmál“ sem haldið var á Akureyri. Markmið þess var fyrst og fremst að auka hlut kvenna í bæjarstjórnarkosningunum sem fram fóru í maí sl. Verkefnið heppnaðist svo vel að full ástæða þótti til að þróa það enn frekar. Allir samstarfsaðilarnir ásamt Starfsgreinasambandinu ákváðu því í sameiningu að sækja um styrk í Jafnréttissjóð Íslands til að standa fyrir sambærilegum námskeiðum á sex stöðum á landinu sem væru sérsniðin að konum í verkalýðshreyfingunni. Meginmarkmið námskeiðanna er að stuðla að aukinni þátttöku kvenna bæði innan og í forystu verkalýðshreyfingarinnar en mjög hallar á konur á þessu sviði. Það er mikið ánægjuefni að verkefnið er styrkt með þessum hætti Við hlökkum til að hefja vinnuna og hitta kröftugar konur um land allt!
Hitt verkefnið sem Jafnréttisstofa hefur aðkomu að heitir„KvennaVinna: Creating deserving labour opportunities for immigrant women“. Markus Hermann Meckl, prófessor við Háskólann á Akureyri, fer fyrir þessu verkefni sem snýst um að auka möguleika kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði. Atvinnuleysi meðal erlendra kvenna á Íslandi hefur áhrif á stöðu jafnréttis í íslensku samfélagi. KvennaVinna er rannsóknarverkefni sem er þróað til að takast á við þá áskorun að auka atvinnutækifæri kvenna af erlendum uppruna. Meginmarkmið verkefnisins er að finna betri og hentugri atvinnu fyrir konur af erlendum uppruna með því að bjóða upp á stuðnings-, þjálfunar- og leiðbeinandaáætlanir á vinnustaðnum og að finna besta verklagið og hentugar aðferðir fyrir vinnuveitendur og fyrirtæki.
Jafnréttissjóður Íslands sem var stofnaður árið 2015 styður í ár fjölmörg spennandi verkefni sem munu stuðla að aukinni þekkingu og framþróun þegar kemur að jafnrétti kynjanna í okkar samfélagi.
Nánar er fjallað um úthlutunina á vef velferðarráðuneytisins.