- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur skipað, til tveggja ára, aðgerðahóp stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins til að vinna að launajafnrétti kynjanna.
Í lok október 2012 undirrituðu samtök aðila á vinnumarkaði viljayfirlýsingu um samstarf til að eyða kynbundnum launamun. Viljayfirlýsingin var undirrituð sama dag og velferðarráðherra, Guðbjartur Hannesson, kynnti aðgerðaáætlun stjórnvalda um launajafnrétti kynja sem ríkisstjórn hafði þegar samþykkt.
Aðgerðaáætlunin um launjafnrétti kynjanna gildir til lok ársins 2016 og markmið hennar sem útfærð eru í almennum aðgerðum miða að því að draga töluvert úr þeim kynbundna launamun sem til staðar er á íslenskum vinnumarkaði. Til að aðgerðaáætlunin nái þessum markmiðum er „mikilvægt að allir leikendur á innlendum vinnumarkaði axli ábyrgð við að stuðla að því að konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda séu greidd jöfn laun og njóti sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.“
Liður í að skapa vettvang til samstarfs aðila á vinnumarkaði er skipan sérstaks aðgerðahóps sem hefur það hlutverk að vinna að samræmingu launarannsókna, gera áætlun um kynningu á jafnlaunastaðli, ásamt því að vinna að ráðgjöf og upplýsingamiðlun um launajafnrétti hjá fyrirtækjum og stofnunum.
Aðgerðahópurinn hefur nú verið skipaður til tveggja ára. Formaður hópsins og verkefnastjóri er Birna Hreiðarsdóttir.
Lesa má aðgerðaáætlun um launamun kynjanna hér.