Viðburðir í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna

8. mars er alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Í því tilefni verða ýmsir viðburðir á dagskrá hér á landi. Þar á meðal má nefna ráðstefnu um launajafnrétti, hádegisrabb um nýju jafnréttislögin og ráðstefnu á Akureyri um stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Einnig verða Zontakonur með söfnun um land allt fyrir Stígamót. Í dag:

Aðferðir til að ná launajafnrétti - ráðstefna

Samtök launafólks og Jafnréttisstofa bjóða til ráðstefnu. Þema ráðstefnunnar er: aðferðir til að ná launajafnrétti - kostir, gallar og nýjar hugmyndir. Ráðstefnan er haldin í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6, fimmtudaginn 6. mars, kl. 13:00-16:15.
Nánari dagskrá er hægt að skoða hér.


Föstudaginn 7. mars:

Ný jafnréttislög, til hvers? - hádegisrabb Jafnréttisstofu
Jafnréttisstofa býður upp á hádegisrabb, föstudaginn 7. mars, klukkan 12-13:00, í húsakynnum Jafnréttisstofu, Borgum, 3. hæð. Starfsfólk Jafnréttisstofu mun halda stutta kynningu á nýju jafnréttislögunum og ræða hvaða áhrif þau geta haft á framtíð jafnréttismála. Í boði verða léttar veitingar. Allir eru velkomnir.
 

Laugardaginn 8. mars:

Bleik orka á Akureyri – Ráðstefna um stöðu kvenna í þjóðfélaginu
Laugardaginn 8. mars, verður haldin ráðstefna um stöðu kvenna í þjóðfélaginu. Ráðstefnan verður í Ketilhúsinu á Akureyri og stendur frá 10 til 16. Um er að ræða fjölbreytta dagskrá þar sem staða jafnréttismála verður skoðuð frá ýmsum sjónarhornum. Á meðal fyrirlesara eru Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra og Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu. Ráðstefnan er öllum opin. Nánari dagskrá er að finna hér.


Friður og menning
Dagskrá í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur, laugardaginn 8. mars kl. 14:00.
Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi  kvenna fyrir friði og jafnrétti, laugardaginn 8. mars, verður haldinn opinn fundur í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur undir yfirskriftinni Friður og menning.  Hér á landi er hefð fyrir því að Menningar- og friðarsamtökin MFÍK hafi frumkvæði að því að bjóða kvennasamtökum og stéttarfélögum til samstarfs í tilefni dagsins. Í ár standa 16 samtök og stéttarfélög að fundinum í Ráðhúsi Reykjavíkur, þ.á.m. KRFÍ, og hefst hann kl. 14:00. Dagskrá.

 
Kaupið rósanælur af Zontakonum 7. - 8. mars til stuðnings Stígamótum
Zontakonur á Íslandi ætla að selja 10.000 fallegar rósanælur helgina 7.-8. mars. Salan mun fara fram í stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu, í Árborg, á Ísafirði og á Akureyri. Ágóðinn á að standa undir aukinni þjónustu Stígamóta á landsbyggðinni. Nánar umfjöllun er að finna hér.