Vigdís Finnbogadóttir áttræð

Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands fagnar áttræðisafmæli sínu í dag. Vigdís er og hefur verið konum frábær fyrirmynd til góðra verka, jafnt innanlands sem utan. Jafnréttisstofa óskar Vigdísi innilega til hamingju með daginn.

Viðamikil afmælisdagskrá verður haldin í Háskólabíói í dag, afmælisdaginn 15. apríl og hefst hún kl. 16:30. 

            

Þú siglir alltaf til sama lands

Hátíðardagskrá í Háskólabíói 15. apríl kl. 16:30–18:00


Dagskráin er öllum opin. Húsið verður opnað kl. 15:30 og eru gestir hvattir til að mæta stundvíslega þar sem sent verður beint út í sjónvarpi og útvarpi.

Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands, setur dagskrána kl. 16:30 og í kjölfarið munu Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri ávarpa afmælisbarnið.
Háskóli Íslands, stjórnvöld og Reykjavíkurborg standa að afmælishátíðinni.

Þá tekur við dagskrá í myndum, tali og tónum undir listrænni stjórn Kolbrúnar Halldórsdóttur.

Dagskráin er afmælisgjöf til Vigdísar frá listamönnum og þeim samtökum sem Vigdís hefur unnið hvað mest með.

Dagskránni lýkur laust fyrir kl. 18 með ávarpi afmælisbarnsins.