- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Lögbinda ætti hlut kynjanna í stjórnum fjármálafyrirtækja samkvæmt frumvarpi fjögurra þingmanna, sem lagt var fram á Alþingi í síðustu viku. Þar er lagt til að lögum um fjármálafyrirtæki verði breytt, þannig að við kjör í stjórn verði tryggt að þar sitji sem næst jafnmargar konur og karlar. Í greinargerð með frumvarpinu segir að lengi hafi verið rætt um lögfestingu á jöfnun kynjahlutfalls í stjórnum fjármálafyrirtækja. Atburðir síðustu vikna sýni að þörf sé á nýrri nálgun og nýrri hugsun í stjórnun fjármálafyrirtækja. Bent er á að aðrar þjóðir, til dæmis Norðmenn, hafi farið þá leið að lögfesta hlutfallið til að tryggja jafnræði kynja í stjórnum fyrirtækja.
Nú þegar stærstu bankar landsins verða í aðaleigu ríkisins og hlutfall kynjanna í stjórn þeirra þarf að vera sem jafnast og ekki minna en 40% í samræmi við jafnréttislög er eðlilegt að þessi regla eigi við um öll fjármálafyrirtæki landsins, segja flutningsmenn frumvarpsins í greinargerðinni, en það er lagt fram af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Guðbjarti Hannessyni, Ástu R. Jóhannesdóttur og Ellert B. Schram.
Frumvarpið ásamt greinargerð má sjá hér.