- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Sálfræðingar munu annast meðferðarstarfið en markmið verkefnisins er að veita körlum sem beitt hafa heimilisofbeldi meðferð og aðstoð séu þeir reiðubúnir að leita sér hjálpar. Áhersla er lögð á að gerendur komi sjálfviljugir í meðferð og axli sjálfir ábyrgð á ofbeldinu. Meðferðin byggist á einstaklingsviðtölum og getur staðið frá sex mánuðum til tveggja ára.
Samhliða meðferðarstarfinu verður starfandi sérstök verkefnisstjórn með þátttöku Jafnréttisstofu, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Samtaka um Kvennaathvarf og fulltrúi Jafnréttisstofu verður verkefnisstjóri. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er m.a. að skilgreina þróun verkefnisins til framtíðar í samráði við meðferðaraðila, fylgjast með daglegri starfsemi og standa fyrir mati á árangri verkefnisins.
Upplýsingar um viðtöl og meðferðir eru veittar í Hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717 en einnig má hafa beint samband við sálfræðingana Einar Gylfa Jónsson og Andrés Ragnarsson. Ef þú þekkir einhvern sem hefur beitt eða verið beittur ofbeldi á heimili getur þú gert honum greiða með því að benda á þá aðstoð sem stendur til boða.