100 ár frá fyrsta kvennaframboðinu

Sumir dagar eru merkilegri en aðrir frá sögulegu sjónarmiði. Þann 24. janúar fyrir nákvæmlega 100 árum voru haldnar bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík. Þá gerðist það að fyrsti kvennalistinn sem boðinn var fram fékk fjóra fulltrúa kjörna inn í 15 manna bæjarstjórn höfuðstaðarins. Þetta voru merk tímamót og hluti af baráttunni fyrir fullum kosningarétti og kjörgengi kvenna til Alþingis.

Það var 22. nóvember 1907 sem Danakonungur undirritaði lög sem veittu giftum konum kjósenda í Reykjavík og Hafnarfirði kosningarétt og kjörgengi til bæjarstjórna en það þýddi að kjósendum fjölgaði verulega í þessum bæjarfélögum. Á þessum árum tíðkaðist að setja sérstök kosningalög fyrir kaupstaði landsins sem þar með buðu þegnum sínum upp á mismunandi mikil mannréttindi. Það þætti heldur betur óviðeigandi í dag.

Áður en lögin um kosningarétt giftra kvenna voru samþykkt voru í gildi lög sem veittu ekkjum og einhleypum konum sem „áttu með sig sjálfar“ og borguðu skatt, kosningarétt og kjörgengi. Fáar konur höfðu þó nýtt sér réttindin. Með lögunum frá 1907 varð heldur betur breyting á eins og kom í ljós í kosningunum fyrir 100 árum.

Sérlisti kvenna verður til
Um leið og samþykki konungs lá fyrir hófu kvenfélög bæjarins umræður um það hvernig ætti að fylgja réttindunum eftir. Viðræður hófust við nokkur þeirra félaga sem þá buðu fram um samvinnu í komandi kosningum en fljótlega kom í ljós að karlarnir höfðu mikinn áhuga á atkvæðum kvenna en engan á því að gefa eftir örugg sæti á listum. Því varð niðurstaðan sú að bjóða fram sérlista kvenna.

Kosningabarátta kvennanna var einstaklega vel skipulögð. Þær skiptu bænum niður í hverfi, settu þrjár konur yfir hvert þeirra og síðan var hver einasta kosningabær kona heimsótt þrisvar! Árangurinn lét ekki á sér standa. Fjórar konur náðu kjöri og listinn hefði fengið einn fulltrúa í viðbót hefði þeim hugkvæmst að hafa fleiri á listanum. Konurnar sem tóku sæti í bæjarstjórn voru þær Katrín Magnússon formaður Hins íslenska kvenfélags, Þórunn Jónassen formaður Thorvaldsenfélagsins, Bríet Bjarnhéðinsdóttir formaður Kvenréttindafélags Íslands og Guðrún Björnsdóttir kaupkona.

Kosningaréttur til Alþingis
Á ráðstefnunni Krossgötur kynjarannsókna sem haldin var 9.-10. nóv. í Háskóla Íslands benti Svanur Kristjánsson prófessor á að umræður hefðu hafist árið 1909 um að koma kosningarétti kvenna til Alþingis á í áföngum, með því að beita aldursákvæðum. Svanur taldi að úrslit alþingiskosninganna 1908 hefðu leitt til þess að ráðandi öfl óttuðust mjög að fá stóra hópa nýrra kjósenda inn á stjórnmálamarkaðinn.

Alþingiskosningarnar 1908 snérust um „Uppkastið“ svokallaða en það fjallaði um stöðu Íslands í danska ríkinu og urðu hatramar deilur um það. Þær leiddu til þess að kosningaþátttaka karla sló öll met.  Ætli kosningasigur kvennaframboðsins í ársbyrjun 1908 hafi ekki líka valdið kvíða og óróa í brjóstum þeirra sem óttuðust áhrif vaxandi kvennahreyfinga, bindindishreyfinga og verkalýðsfélaga? Það var einmitt árið 1908 sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu (reyndar greiddu bara karlar atkvæði) að koma á algjöru áfengisbanni í áföngum.

Lýðræðisbylgjan varð ekki stöðvuð
Árið 1909 var lögum breytt þannig að giftar konur um allt land fengu kosningarétt og kjörgengi til sveitastjórna sem og vinnukonur og verkamenn. Stjórnmálaflokkar óttuðust sannarlega nýja og stóra hópa kjósenda. Árið 1915 var aldursákvæðum beitt til að takmarka tölu þeirra og fengu konur sem orðnar voru 40 ára og eldri kosningarétt og kjörgengi. Aldursákvæðið átti svo að lækka um eitt ár á ári þannig að staðan yrði jöfn á 15 árum. Kvenréttindakonan Bríet Bjarnhéðinsdóttir sagði að Íslendingar yrðu að athlægi um allan heim fyrir þessa vitleysu.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar 1918 leiddi til þess að rétturinn var jafnaður, að kröfu Dana eins og Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur hefur bent á. Skilningur og vilji til að tryggja mannréttindi og jafnrétti kynjanna var nú ekki meiri en þetta á ísa köldu landi. Það var svo árið 1926 sem Ingibjörg H. Bjarnson fyrsta konan sem tók sæti á Alþingi fékk samþykkt að konur og karlar stæðu fullkomlega jafnt að vígi gagnvart kosningum og kjörgengi en konur höfðu mátt skorast undan kjöri.

Kosningaþátttaka kvenna á landsvísu var dræm fyrst í stað en síðan tók hún kipp í harðnandi stjórnmálaátökum kreppuáranna eftir 1930. Nú er svo komið að fleiri konur kjósa en karlmenn en samt er hlutur kvenna í bæjarstjórnum aðeins 36% og 32% á Alþingi. Betur má ef duga skal.  
 

Kristín Ástgeirsdóttir,
framkvæmdastýra Jafnréttisstofu