16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi

Alþjóðlegt átak gegn kynbundnu ofbeldi er nú haldið í 23 sinn. Átakið stendur í 16 daga frá 25. nóvember sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og til 10. desember en það er hinn alþjóðlegi mannréttindadagur. Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.Þema átaksins í ár er baráttan gegn hernaðarhyggju en auk þess var ákveðið á Akureyri að leggja sérstaka áherslu á unglinga, ofbeldi og klámvæðingu. Löngu orðið tímabært að taka það mál á dagskrá, samanber viðtal sem birtist í Akureyri vikublaði og finna má á slóðinni http://www.akureyrivikublad.is/akvbl/frettir/2013/10/23/ofbeldi-i-kynlifi-ungs-folks/

Sextán daga átakið í ár hófst á Akureyri þann 16. nóvember sl. með hátíðarsýningu á leikverkinu Sek í Samkomuhúsinu. Í kjölfar sýningarinnar fóru fram umræður um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum en leikritið byggir á dómsmáli vegna kynferðisbrots frá 19. öld.

Dagskráin á Akureyri heldur síðan áfram sunnudagskvöldið 24. nóvember kl. 20:00 með kvöldguðþjónustu í Glerárkirkju með þátttöku AFLSINS samtaka gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi.
 
Mánudaginn 25. nóvember kl. 17:00 verður svo farin ljósaganga frá Akureyrarkirkju og eru foreldrar  hvattir til að mæta ásamt börnum sínum og ganga gegn ofbeldi. Í lok göngunnar bjóða Sambíóin, Norðurorka og VÍS göngufólki í bíó þar sem sýnd verður kvikmyndin Disconnect http://www.sambio.is/Event/1702/ en myndin fjallar um netnotkun, klám og einelti. (Ath. myndin er bönnuð innan 12 ára).

Fimmtudaginn 28. nóvember kl. 12:10 býður Háskólinn á Akureyri til málstofu þar sem Sigrún Sigurðardóttir lektor við heilbrigðisvísindasvið fjallar um afleiðingar kynferðislegs ofbeldis í æsku fyrir heilsufar og líðan unglinga og veltir upp spurningunni hvort drengir og stúlkur sýni sömu einkenni og viðbrögð eftir ofbeldi. Mikilvægt er að þekkja einkenni og afleiðingar kynferðislegs ofbeldis og vera þannig betur í stakk búin til að greina ofbeldið og veita stuðning og umhyggju. Fyrirlesturinn á sérstaklega erindi til foreldra, starfsfólks í heilbrigðiskerfinu, skólakerfinu, lögreglu, félagsþjónustu svo og allra þeirra sem vinna með börnum og unglingum.
 
Föstudaginn 29. nóvember kl. 12:00 er hádegissamvera í Eymundsson þar sem Bjarni Fritzson les upp úr nýútkominni bók sinni Strákar og spjallar við gesti. Bjarni segir að nóg sé komið af því að tala um stráka, nú þurfi að tala við strákana sem oft skorti heilbrigðar fyrirmyndir og fræðslu.

Föstudaginn 6. desember kl. 12:00 er hádegissamvera í Eymundsson þar sem Vigdís Grímsdóttir les upp úr nýútkominni bók sinni Dísusaga en þar fær Dísa, sem varð fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku, loks að segja sögu sína.

Laugardaginn 7. desember kl. 14:00 er samverustund í Amtbókasafninu helguð styrjöldum og hernaði í bókmenntum, lesið verður upp úr bókum og boðið upp á spjall um efnið. Þennan sama dag stendur Amnesty fyrir Bréfamaraþoni á Amtbókasafninu, Bláu könnunni og Eymundsson. 


Dagskrá 16 daga átaksins er öllum opin og hægt er að fylgjast með atburðum víðar á landinu á facebooksíðu þess.


Auglýsing átaksins á Akureyri og upplýsingar um málstofuna 28. nóvember.