- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þriðjudaginn 21. júní heldur dr. Kelly Coate, fræðimaður við National University of Ireland í Galway á Írlandi, fyrirlestur um starfsframa kvenna innan írska fræðaheimsins sem hún kallar 'Hitting the glass ceiling: a study of the barriers to academic women's career progression in Irish higher education'. Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu 101 í Lögbergi kl. 12-13 og fer fram á ensku.Tölulegar upplýsingar frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gefa til kynna að fræðikonur á Írlandi þurfi að berjast við eitt þykkasta glerþak í Evrópu. Hlutfall kvenna í æðri menntun er lægra en karla og um það bil 10% prófessora í írskum háskólum eru konur.
Í fyrirlestrinum mun dr. Coate ræða rannsókn sem framkvæmd var innan eins háskóla (National University of Ireland í Galway) til að kanna þær hindranir sem standa í veginum fyrir starfsframa kvenna í fræðaheiminum.
Könnunin, sem tók til 250 fræðimanna, hefur leitt í ljós muninn á starfsframvindu karla og kvenna og aðferðirnar sem notaðar eru þegar stöðuhækkanir eru veittar. Dr. Coate mun útskýra hvernig þessi gögn hafa verið notuð til að gera tillögur að breytingum.
Dr. Kelly Coate er aðstoðardeildarforseti framhaldsnáms við College of Arts, Social Sciences and Celtic Studies við National University of Ireland í Galway. Hún hefur rannsakað ýmsar hliðar æðri menntunar, svo sem stefnumótun og framkvæmdir, námsskrá æðri menntunar, alþjóðavæðingu hennar og breytingar sem á henni hafa orðið í samtímanum. Hún situr í ritstjórn tímaritsins Gender and Education og Teaching in Higher Education, og er meðlimur í stjórn Society for Research in Higher Education.
Það eru Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) og Rannsóknarstofa um háskóla við Háskóla Íslands sem standa að fyrirlestrinum.