Saga, starfsmat, völd og virðing kvenna var til umræðu á hádegisfundi sem Jafnréttisstofa stóð fyrir í samstarfi við Akureyrarbæ í tilefni Kvennafrídagsins í gær.
Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu rakti söguna og hvernig konur hafa ætíð verið til færri fiska metnar. Lengi vel höfðu þær einungis hálf laun á við karla og nú sýna tölur Hagstofunnar að konur hafa tæplega 30% lægri meðaltekjur af atvinnu en karlar. Mikið verk er því enn óunnið. Kristín lauk máli sínu á því að hvetja fundarmenn til dáða. „Áfram stelpur og strákar komið þið með.“
Arna Jakobína Björnsdóttir formaður Kjalar stéttarfélags fjallaði um starfsmatkerfi til að meta ólík störf til launa. Markmið starfsmatsins er að tryggja að starfsmenn fái sömu laun fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf. Til að starfsmat geti talist „kynhlutlaust” þarf það að taka jafnt tillit til þeirra þátta sem einkenna hefðbundin kvenna- og karlastörf.
Nánari upplýsingar um starfsmatið má finna á slóðinni www.starfsmat.is
Drífa Snædal nefndi sitt erindi „Völd, virðing og launaseðillinn“. Drífa fór yfir stöðu kynjanna á vinnumarkaði og sagði fyrirvinnuhugtakið lífseigt. Giftir karlar hafi hærri laun en ógiftir karlar og karlar meti sig út frá vinnunni. Hún sagði kjaramisréttið vera samfélagslegt verkefni, ekki einstaklingsverkefni. Karlar séu alltaf viðmiðið í vinnutíma og launum. Drífa spurði hvort ekki væri réttara að konur væru viðmiðið og karlar færu að vinna minna og taka meiri þátt í heimilisstörfum og fjölskyldulífi.