Alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti

Starfsfólk Jafnréttisstofu stóð upp frá vinnu sinni í gær klukkan ellefu ásamt fleira fólki og myndaði hring á bílastæðinu fyrir utan Borgir á Akureyri til að sýna á táknrænan hátt samstöðu gegn kynþáttamisrétti.

Tilefnið var að í gær 21. mars var alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi þessa dagsetningu til að minnast 69 mótmælenda sem myrtir voru 21. mars árið 1960 er þeir tóku þátt í mótmælum gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku.

Samtökin sem halda utan um Evrópuvikuna heita United Against Racism og á heimasíðu þeirra er hægt að finna allar frekari upplýsingar um 21. mars sem og Evrópuvikuna. Þar er einnig að finna upplýsingar um hvernig dagskráin fer fram í öðrum löndum Evrópu á hverju ári. Dagana í kringum 21. mars hafa þúsundir manna komið saman eða staðið að ýmsum viðburðum til að kveða niður kynþáttafordóma og misrétti í álfunni.

Fréttin birtist fyrst á www.vikudagur.is