- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Á meðal fyrirlesara voru Rashida Manjoo, umboðskona Sameinuðu þjóðanna í ofbeldismálum, Janice Raymond frá Coalition against Trafficking in Women, John Crownover frá CARE International NWB, Knut Storberget dómsmálaráðherra Noregs, Dr. Esohe Aghatise frá Nígeríu, Ruchira Gupta forseti Apne Aap Women Worldwide Indlandi, Taina Bien Aime framkvæmdastýra samtakanna EQUALITY NOW!, Margarita Guille frá stjórn alþjóðasamtaka kvennaathvarfa, og Guðrún Jónsdóttir stjórnarformaður Skottanna.
Erindin voru mjög fjölbreytt og gáfu mjög góða mynd af stöðu mála í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi út um allan heim, ásamt helstu áherslum og aðferðum.
Rashida Manjoo kynnti hlutverk hennar sem umboðskona SÞ í ofbeldismálum, sem felur í sér að bera kennsl og vekja athygli á mikilvægustu áherslumálunum í þessum málaflokki. Henni finnst mikilvægt að minna yfirvöld allra þjóða hverjar þeirra skyldur eru og nauðsyn þess að endurskoða þær aðferðir sem er verið að beita gegn kynbundnu ofbeldi, eins og til dæmis hverjar áherslurnar eru þegar verið er að ræða skaðabætur.
- Nánari upplýsingar
Janice Raymond lagði áherslu á að skoða hugmyndir um eftirspurn á vændi og benti á að alltof algengt er að ekki er tekið á þeim vanda þegar verið er að takast á við vændi og mansal. Hún nefndi ótal dæmi um átök og verkefni sem fela í sér vafasamar áherslur og jafnvel samstarf við neytendasamtök vændiskaupenda, og lagði áherslu á að þessi verkefni vinna oftast ekki á rót vandans og ef eitthvað er viðhalda þeirri menningu sem réttlætir vændi.
- Heimasíða Coalition against Trafficking in Women.
John Crownover frá CARE International á Balkanskaga kynnti verkefni sem ber heitið Young Men´s Initiative. Um er að ræða verkefni sem vinnur að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi, þar sem áhersla er á að vinna með ungum karlmönnum á aldrinum 13 til 19 ára. Í verkefninu var ólíkum nálgunum beitt til að varpa ljósi á hvernig hefðbundnar hugmyndir um kynjahlutverk og félagsmótun karlmanna leiða til viðhorfa sem vinna gegn jafnrétti kynjanna. Sérstök áhersla var lögð á tengsl ákveðinna hugmynda um karlmennsku og ofbeldis. Í samvinnu við þátttakendur voru þróaðar nálganir og aðferðir til að takast á við kynbundið ofbeldi.
- Nánar um verkefnið.
Knut Storberget dómsmálaráðherra Noregs, er meðlimur í hópnum We Must Unite, sem er hópur 14 heimsþekktra karlleiðtoga á vegum Ban Ki-moon aðalritara Sameinuðu þjóðanna. Hann talaði um sína sýn á kynbundið ofbeldi og nauðsyn þess að ekkert umburðarlyndi ríkti gagnvart því. Hann taldi mikilvægt að leiðtogar myndu skuldbinda sig til þess að setja baráttuna gegn kynferðisofbeldi í forgang í störfum sínum. Þess vegna fannst honum það mikill heiður að fá boð frá Ban Ki-Moon til að taka þátt í hópi sem lagði aukna áherslu á þátttöku karl-leiðtoga í þessari baráttu.
- Nánar um UNITE átakið.
Dr. Esohe Aghatise fór í erindi sínu yfir stöðu mála varðandi kynbundið ofbeldi í Afríku og kynnti til sögunnar nokkur dæmi um þá félagslegu þætti sem veikja stöðu kvenna og jafnvel setja þær í hættu. Hún nefndi nokkur dæmi þar sem menningarhefðir fólu í sér beint og óbeint ofbeldi gagnvart konum.
- Heimasíða Associazione Iroko Onlus
Ruchira Gupta, forseti Apne Aap Women Worldwide, Indlandi, kynnti starfsemi samtakanna sem vinna gegn mansali á stelpum og konum í Indlandi. Samtökin vinna markvisst að því að veita konum aðstoð við að losna endanlega úr viðjum mansals og vændis. Hún lagði áherslu á að það ætti ekki að gefa neinn afslátt af því að vinna að kjarna málsins, vændi væri kynbundið ofbeldi og lykilatriði að takast á við eftirspurnina. Hún benti á með nokkrum dæmum að það væri skaðlegt ef verkefni sem vinna gegn mansali og vændi, fælu ekki í sér heildræna sýn og tækju ekki á uppsprettu vandans. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að þessi verkefni væru unninn á jafnréttisforsendum.
- Heimasíða Apne Aap Women Worldwide
Taina Bien Aime framkvæmdastýra EQUALITY NOW!, lagði áherslu á mikilvægi grasrótarstarfs til að vekja athygli á brotum á mannréttindum kvenna. Þó að margt hafi breyst undanfarin 20 ár, þá er enn mjög mikilvægt að leggja áherslu á hlutverk laga í þessari baráttu, því það hefur sýnt sig að mismunun leiðir til ofbeldis. Því miður eru enn of mörg dæmi um að yfirvöld sinni ekki sínu hlutverki í að vernda konur gegn ofbeldi og eru oft á tíðum að sniðganga lög. Hún lagði mikla áherslu á að halda áfram að vinna markvisst að þessum málum, enda fara ógnirnar við réttindi kvenna ekki dvínandi, eins og ríkjandi ranghugmyndir í fjölmiðlum og aukin klámvæðing bera vitni um.
- Heimasíða EQUALITY NOW!
Margarita Guille, sem er í stjórn alþjóðasamtaka kvennathvarfa, kynnti fyrir ráðstefnugestum þær aðstæður sem kvennaathvörf vinna við í Mexikó. Starf kvennathvarfa þar í landi getur verið mjög erfitt og þess vegna hefur samstarf á milli kvennaathvarfa verið mjög mikilvægt. Hún talaði stuttlega um samtök athvarfa í Mexíkó og einnig kynnti hún alþjóðasamtökin. Samstarf af þessu tagi hefur hjálpað kvennaathvörfum út um allan heim að deila reynslu, takast á við sameiginleg vandamál og þróa staðlaðar aðferðir og ferli. Að lokum benti hún á að í febrúar 2012 verður haldin alþjóðaráðstefna á vegum samtakanna, í Washington DC.
- Heimasíða Alþjóðasamtaka kvennaathvarfa
Til að loka ráðstefnunni steig Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta og stjórnarformaður Skottanna í pontu. Í erindi sínu notaði Guðrún tækifærið til þess að tengja það sem kom fram í erindum dagsins og skoða stuttlega hver staðan væri varðandi kynbundið ofbeldi á Íslandi. Með nýlegum gögnum, dæmum úr fjölmiðlaumræðu og yfirlýsingu frá ríkissaksóknara, benti hún á að ennþá væri langt í land hvað varðar að breyta viðhorfum til kynferðisofbeldis og hver bæri ábyrgð á því. Þessi viðhorf eru enn að hafa áhrif á hvernig er tekist á við kynferðisbrotamál. Í ljósi alls þess telur hún vera sterk rök fyrir því að gera kröfu um að stofnað verði embætti sérstaks saksóknara í kynferðisbrotamálum. Í lokin þakkaði hún öllum sem tóku þátt í ráðstefnunni fyrir sitt framtak.
- Heimasíða Stígamóta
- Heimasíða Skottanna