- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Fyrir ári síðan var í fyrsta sinn haldið upp á alþjóðlegan dag stúlkubarnsins sem haldinn er 11. október að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Þessi mikilvægi dagur á sér alllangan aðdraganda.
Við undirbúning kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kína árið 1995 þótti ástæða til að setja sérstakan kafla um stúlkubarnið inn í fyrirhugaðar samþykktir ráðstefnunnar og framkvæmdaáætlunina sem fylgdi með. Þetta var í fyrsta sinn sem sjónum var sérstaklega beint að stúlkum á kvennaráðstefnum SÞ en sú í Kína var númer fjögur í röðinni. Þetta tengdist þeirri kenningu að nauðsynlegt væri að skoða líf kvenna frá vöggu (og jafnvel frá fósturstigi) til grafar til að öðlast skilning á undirskipaðri stöðu þeirra um allan heim, réttindaleysi, fátækt og valdaleysi í veröld feðraveldisins.
Árin á undan hafði hulunni verið svipt af kynferðislegri misnotkun á börnum sem verið hafði mikið feimnismál um allan heim. Löngu var orðið ljóst hve ofbeldi gegn konum, þar á meðal kynferðisofbeldi, var útbreitt en nú höfðu rannsóknir leitt í ljós að sama gilti um börnin, sérstaklega stúlkubörn. Þá var mikil umræða um eyðingu kvenkynsfóstra og útburð á stúlkubörnum, einkum í Kína og á Indlandi sem ekkert lát er á og hefur leitt af sér alvarlegt misvægi hvað varðar hlutföll kynjanna meðal íbúanna. Stúlkubörn fengu og fá síður menntun en drengir, þeim er víða gert að vinna í þágu heimila sinna í stað þess að ganga í skóla. Milljónir stúlkubarna verða fyrir limlestingum á kynfærum sínum og barnagiftingar tíðkast ótrúlega víða, þ.e. stúlkubörn eru giftar mun eldri mönnum. Þvinguð hjónabönd eru alvarlegt vandamál og m.a. nefndi þáverandi jafnréttisráðherra Svíþjóðar á fundi Kvennanefndar SÞ árið 2012 að um 70.000 ungmenni í Svíþjóð væru neydd til að giftast. Illa gengur að kveða slíka ósiði niður. Þúsundir stúlkna lenda í klóm mansals og kynlífþrælkunar og þannig mætti áfram telja. Í þeim ríkjum heims þar sem jafnrétti kynjanna er hvað mest beinast sjónir einkum að kynskiptu náms- og starfsvali ungmenna og þeim íhaldssömu staðalmyndum kynjanna sem sífellt er haldið að börnum og ungmennum í gegnum fjölmiðla- og netheiminn og og beina þeim í hefðbundna farvegi. Þá hafa margir áhyggjur af hatursorðræðu, klámvæðingu og kynbundnu einelti sem því miður virðist færast í aukana.
Góðu fréttirnar eru að mjög hefur dregið úr barnadauða í heiminum í tengslum við heimsátak og einnig að menntun stúlkna hefur aukist verulega. Í okkar heimshluta er mun meiri ástæða til að hafa áhyggjur af menntunarskorti karla en kvenna enda er menntunarsókn kvenna með ólíkindum.
Skilaboð dagsins frá framkvæmdastýru UN Women Phumzile Mlambo-Ngcuka eru þessi: Almenn og góð menntun fyrir alla sem tekur tillit til beggja kynja er lykill að því að treysta grundvöll lýðræðis, valdeflingar kvenna og raunverulegs jafnréttis.
Frekari upplýsingar má sjá hér
KÁ