- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Á sama tíma og Jafnréttisráð fagnar jafnri kynjaskiptingu í ríkisstjórn og því að fyrsta konan gegni embætti forsætisráðherra, bendir það á hættur sem steðja að konum og körlum á vinnumarkaði og hvetur til þess að ástandið sem nú ríkir verði skoðað út frá hagsmunum beggja kynja. Ályktunin er hér birt í heild.
Ályktun samþykkt á fundi Jafnréttisráðs 5. febrúar 2009
Jafnréttisráð fagnar þeim sögulegu tímamótum sem nú hafa orðið í íslensku samfélagi hvað jafnrétti kynjanna og hlut kvenna í völdum á vettvangi stjórnmálanna varðar. Ekki aðeins hefur kona í fyrsta skipti tekið forystu fyrir ríkisstjórn Íslands sem forsætisráðherra, heldur er hlutur kynjanna í fyrsta skipti jafn meðal ráðherra. Þess vegna mun ártalið 2009 verða skráð í sögubækur sem tímamótaáfangi í þróun jafnréttisbaráttunnar á Íslandi.
Áfanginn er dýrmætur fyrir þær sakir líka að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur um langt árabil verið öflug baráttukona fyrir auknu jafnrétti kynjanna og sem félags- og tryggingamálaráðherra hefur hún verið metnaðarfullur ráðherra jafnréttismála. Því treystir Jafnréttisráð því að ný ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur muni marka enn frekari spor í þágu baráttunnar fyrir jafnrétti kynja. Fyrirheit um það eru gefin í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Þar er því lýst yfir að jafnrétti kynjanna muni verða ríkisstjórninni leiðarljós við endurreisn íslensks efnahagslífs og uppbyggingu faglegra stjórnarhátta auk þess sem kveðið er á um að stjórnvöld muni standa vaktina og fylgjast grannt með áhrifum efnahagsástandsins á stöðu kynjanna.
Í þeirri fyrstu bylgju aukins atvinnuleysis sem nú ríður yfir hefur atvinnuleysi meðal karla aukist hlutfallslega meira en kvenna. Í lok janúar voru 63% atvinnulausra karlar og 37% konur. Atvinnuleysi er mest meðal verkafólks, iðnaðarmanna, þjónustu- og afgreiðslufólks og stjórnenda. Meðal fólks sem aðeins hefur lokið grunnskólaprófi eða sambærilegri menntun er atvinnnuleysi yfir 10%. Versnandi starfsskilyrði atvinnulífsins hafa haft áhrif í flestum starfsgreinum, þar á meðal á uppsagnir.
Á sama tíma er hinsvegar boðaður umtalsverður niðurskurður á útgjöldum ríkisins til næstu ára. Við þann niðurskurð er hætta á að konur tapi atvinnu sinni við hvers kyns velferðarþjónustu þar sem þær starfa í ríkari mæli en karlar og oft á lágum launum sem ekki hafa í sama mæli og laun karla tekið breytingum í átt til hækkunar vegna þenslunnar á síðustu árum. Í því sambandi er vert að minna á, að því lakari sem hin opinbera velferðarþjónusta er, því meira er auknum byrðum velt yfir á ólaunaða þjónustu kvenna innan fjölskyldunnar, vegna þess að konur axla meiri ábyrgð en karlar innan fjölskyldnanna. Með niðurskurði á velferðarþjónustunni er því vegið að tækifærum og lífsgæðum kvenna úr tveimur áttum, með skertri atvinnu annars vegar og aukinni fjölskylduábyrgð hins vegar. Hvort tveggja yrði skref afturábak fyrir jafnrétti og jafna stöðu kynjanna.
Í ljósi þess þess fyrirheits stjórnarsáttmálans að jafnrétti kynjanna verði ríkisstjórninni leiðarljós við endurreisn efnahagslífsins vill Jafnréttisráð því skora á ríkisstjórnina að verja atvinnu kvenna og koma í veg fyrir að niðurskurður opinberra útgjalda leiði til aukinna byrða kvenna á vettvangi fjölskyldunnar.
(Samþykkt einróma.)