Aukasýning á Ökutímum

Í tengslum við 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi efna Leikfélag Akureyrar og Jafnréttisstofa til sérstakrar aukasýningar á leikritinu Ökutímum eftir Paula Vogel sunnudaginn 9. des. kl. 20.00. Á eftir verða umræður sérfræðinga, leikhússfólks og áhorfenda. Sýningar á Ökutímum hafa staðið frá því í byrjun nóvember og hafa vakið mikla athygli og sterk viðbrögð. Uppselt hefur verið á allar sýningar til þessa.Um árabil hafa Sameinuðu þjóðirnar efnt til átaks víða um heim til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn konum og börnum. Frá 25. nóv. sem er baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi til 10. des. sem er mannréttindadagur Sameinuðu þjóðanna er rætt um ofbeldið, umfang þess og inntak með margvíslegum hætti og fjallað um alvarlegar afleiðingar þess fyrir einstaklinga og samfélag. Sjónir beinast meðal annars að ofbeldi á átakasvæðum, vændi og mansali, misnotkun á börnum og ofbeldi innan veggja heimilanna.

Leikfélag Akureyrar og Jafnréttisstofa taka nú höndum saman til að vekja athygli á þeirri tegund kynbundins ofbeldis sem er hvað erfiðust viðureignar og mest dulin í samfélagi okkar: misnotkun á börnum. Leikritið Ökutímar lýsir ævi konu sem varð fyrir misnotkun á unga aldri á nærfærinn en um leið afhjúpandi hátt og hafa leikarar Leikfélags Akureyrar fengið einróma lof fyrir frammistöðu sína. Allir eru velkomnir meðan miðar endast. Miðasala er hjá Leikfélagi Akureyrar í síma 4 600 200 eða á netinu, www.leikfelag.is