Bætt verklag getur skilað árangri í baráttu gegn heimilisofbeldi

Í erindi sem Alda Hrönn Jóhannsdóttir, settur aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hélt á jafnréttistorgi í Háskólanum á Akureyri kom fram að nauðsynlegt er að uppfæra löggjöf hér á landi þannig að hún nái betur utan um heimilisofbeldi, en Íslendingar standa ekki jafnfætis nágrannalöndunum hvað það varðar. Í íslenskri löggjöf er ekki að finna skilgreiningu á heimilisofbeldi þó að ýmis lagaákvæði, bæði í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og öðrum lögum taki til einstakra þátta heimilisofbeldis og geri þá refsiverða.
 
Erindið bar yfirskriftina „Heimilisofbeldi sem samfélagsmein – kynning á verklagi og hugmyndafræði á Suðurnesjum“, og var haldið síðastliðinn miðvikudag í samstarfi Jafnréttisstofu og hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri.


Alda Hrönn fjallaði um tilurð og niðurstöður tilraunaverkefnis lögreglu, félagsþjónustu og barnaverndar á Suðurnesjum sem fólst í sérstöku átaki gegn heimilisofbeldi. Heiti verkefnisins var „Að halda glugganum opnum“ og hófst þann 1. febrúar 2013. Helstu niðurstöður eru þær að samstarf milli þessara aðila ber augljósan árangur og skilar sér meðal annars í því að fleiri mál leiða til ákæru og jafnvel sakfellingar. Niðurstöður sýna að í langflestum tilvikum er brotaþolinn kona og gerandinn karl. Af 56 tilvikum sem lögreglan á Suðurnesjum skráði á tímabilinu sem um ræðir komu 84 börn við sögu. Dæmi voru einnig nefnd um unga karla og drengi sem þolendur í aðstæðum heimilisofbeldis sem snúast til varna fyrir móður sína.


Lögreglan á Suðurnesjum hefur bætt verklag til að auðvelda sönnunarfærslu í málum. Þá er nú betur vandað til við nálgun og þjónustu gagnvart brotaþola og börnum á heimili, ásamt því sem eftirfylgni hefur verið efld. Innleiðing samskonar verklags er nú á byrjunarstigi á höfuðborgarsvæðinu.

Hér er hlekkur á upptöku af erindi Öldu Hrannar