- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Sérfræðingar á vegum Barna- og fjölskyldustofu hafa útbúið gagnvirk netnámskeið með grunnfræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni til þess að auka þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða sem starfa með börnum á birtingarmyndum afleiðinga kynferðisofbeldis hjá þeim og hvernig bregðast skuli við ef barn greinir frá ofbeldi.
Það er mikilvægt að allir þeir sem vinna með börnum og unglingum þekki einkenni barna sem hafa orðið fyrir hvers kyns kynferðisofbeldi og kunni að bregðast við með réttum hætti og minnka þannig líkur eru á því að ofbeldið eigi sér stað yfir lengri tíma eða afleiðingarnar hafi varanleg áhrif á líðan barnanna.
Námskeiðin er í fjórum útgáfum með eftirfarandi markhópa í huga: 1) leikskóla, 2) yngri bekki grunnskóla ásamt frístundaheimilum, 3) eldri bekki grunnskóla ásamt félagsmiðstöðvum og 4) framhaldsskóla. Námskeiðin eru hönnuð með þeim hætti að stjórnendur geti fengið staðfestingu á þátttöku starfsfólks og tryggt þannig að allt starfsfólk hafi lokið námskeiðinu. Barna- og fjölskyldustofa fær sjálfkrafa upplýsingar um heildarfjölda þeirra sem taka námskeiðið.
Netnámskeiðin eru afrakstur aðgerða í þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025, þar sem megináherslan er lögð á að efla aldursmiðaða kennslu og forvarnir í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, í samvinnu við heilsugæslu, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar (forvarnaráætlun). Jafnréttisstofa á sæti í stýrihópi forvarnaráætlunar og fagnar birtingu námskeiðanna sem eru lykilþáttur í mörgum aðgerðum hennar auk þess að vera mikilvægt framlag til forvarna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni meðal barna og ungmenna.
Nánari upplýsingar og hlekk á námskeiðin má finna á heimasíðu Barna- og fjölskyldustofu.