BÖRN TIL SÖLU

Í lokaumræðum vetursins býður UNIFEM þér í bíó en dagskráin hefst með sýningu heimildamyndarinnar Börn til sölu eftir Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur fréttakonu. Myndin fjallar um þær tugþúsundir kambódískra stúlkna sem seldar eru mansali á hverju ári. María Sigrún svarar spurningum að sýningu lokinni og þá tekur Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir framkvæmdastýra UNIFEM við og segir okkur af starfi UNIFEM í Kambódíu og nýlegri ferð sinni þangað.

Sýning á heimildarmyndinni Börn til sölu hefst kl. 12 en umræður taka við kl. 13
Hvort tveggja verður í húsnæði Miðstöðvar SÞ að Laugavegi 42, sunnudaginn 2. maí.
Börn til sölu
Maríu Sigrúnu Hilmarsdóttur þekkja flestir úr sjónvarpsfréttum RÚV, en hún gerði einnig heimildarmyndina Börn til sölu sem kom út í fyrra. Á hverju ári eru tugþúsundir ungra, kambódískra stúlkna seldar í þrælkunarvinnu, kynlífsánauð og vændi. Í myndinni er fylgst með lífi nokkurra stúlkna, rætt við stúlkur sem eru í kynlífsánauð, stúlkur sem tekist hefur að bjarga og hjálparstarfsmenn á svæðinu. Leitað er svara við spurningum eins og: Hvað fær foreldri til að selja börnin sín, hvernig fer mansalið fram og hvað er verið að gera til þess að stöðva þessa þróun. Sjá stiklu úr myndinni hér.

UNIFEM í Kambódíu
Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir framkvæmdastýra UNIFEM á Íslandi heimsótti í fyrrasumar skrifstofu UNIFEM í Kambódíu. Í ferðinni kynntist hún þeim verkefnum sem UNIFEM vinnur þar í landi til að bæta stöðu og réttindi kvenna. Steinunn mun segja frá kvennaathvarfi fyrir þolendur ofbeldis, samtökum sem vinna að betra lífi fyrir HIV smitaðar konur og fræðslu fyrir farandverkakonur um réttindi sín.


Nánari upplýsingar veitir: Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, framkvæmdastýra UNIFEM á Íslandi. 552 6200 / 690 3565 / steinunn (hjá) unifem.is

UNIFEM á Íslandi er ein af 17 landsnefndum UNIFEM, Þróunarsjóðs Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna. Landsnefndirnar eru frjáls félagasamtök sem styðja við starf sjóðsins. Markmið UNIFEM á Íslandi er að kynna og auka áhuga landsmanna á UNIFEM og afla fjár til verkefna UNIFEM bæði frá hinu opinbera, fyrirtækjum og einstaklingum. Auk þess að vera málsvari kvenna í þróunarlöndum með það að leiðarljósi að störf þeirra séu órjúfanlegur hluti friðar og framfara.