- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Nýútkomin ársskýrsla Tryggingastofnunar ríkisins leiðir margt forvitnilegt í ljós. Sem dæmi má nefna að á síðastliðnu ári voru konur 96% þeirra sem fengu mæðra eða feðralaun, 2.200 manns fengu greiðslur vegna fatlaðra eða langveikra barna, 285 karlar og 1.915 konur. Hundrað áttatíu og átta konur fengu barnalífeyri vegna ófeðraðra barna en margfalt fleiri konur eru skráðar með börn á framfæri og þurfa að leita sér aðstoðar opinberra aðila en karlar.Samkvæmt jafnréttislögum ber opinberum stofnunum að kyngreina þær tölur sem unnið er með hverju sinni og birta í skýrslum og greinargerðum. Nýlega kom út ársskýrsla Tryggingastofnunar ríkisins fyrir árið 2009 þar sem er að finna mjög athyglisverðar tölur sem vekja margar spurningar um stöðu kynjanna og mismunandi heilsufar kvenna og karla.
Samkvæmt skýrslunni eru ellilífeyrisþegar 25.266, konur eru tæplega 60%, karlar rúm 40%. Það er vel þekkt að konur ná töluvert hærri aldri en karlar en lífslíkur íslenskra karla hafa verið að aukast á undanförnum árum. Sem dæmi um kynjamun má nefna að samkvæmt tölum Hagstofunnar fyrir 2010 eru 315 karlar 85 ára en 469 konur. Konur eru tæp 60% fólks á þessum tiltekna aldri, karlar rúm 40%. Þennan mun þarf að hafa í huga þegar tölurnar hér á eftir eru skoðaðar. En hvernig er fjárhagsleg staða ellilífeyrisþega í kynjafræðilegu ljósi? Heimilisuppbót fá þeir sem hafa litlar tekjur. Þegar hún er könnuð kemur í ljós að alls fá 7.343 ellilífeyrisþegar heimilisuppbót eða tæplega 30% ellilífeyrisþega. Konur eru tæp 72% þeirra sem fá heimilisuppbót. Þessar tölur endurspegla lág laun margra kvenna um áratugaskeið, hóp kvenna sem ýmist vann ekki utan heimilis, fór seint að vinna eða var í hlutastarfi en allt þetta takmarkar lífeyrisréttindi á elliárum.
Tölur varðandi þá sem fá örorkulífeyri eru ekki síður athyglisverðar en þar erum við að ræða um fólk á vinnualdri. Alls fengu 14.507 manns örorkulífeyri árið 2009, 5.603 karlar og 8.904 konur. Konur eru því rúmlega 61% öryrkja, karlar 39%. Fjöldi öryrkja er álíka og tala þeirra sem nú eru skráðir atvinnulausir. Alls fengu 4.481 öryrki heimilisuppbót, en af þeim hópi eru konur tæp 62%, karlar 38%. Svipaðar tölur má finna um sérstaka uppbót til framfærslu. Þegar barnalífeyrir vegna örorku foreldris er skoðaður kemur í ljós að 4.211 foreldrar fá barnalífeyri, 1180 karlar og 3031 kona. Konur eru 72% þeirra sem fá barnalífeyri vegna örorku foreldris. Það þýðir að mun fleiri konur sem búa við örorku hafa börn á framfæri sínu en karlar. Umönnunarbætur til foreldris með fatlað eða langveikt barn eru líka sláandi. Alls fengu 2.200 manns greiðslur vegna fatlaðra eða langveikra barna, 285 karlar og 1.915 konur. Konur eru 87% þeirra sem fá slíkar greiðslur.
Tryggingastofnun sér um greiðslu mæðra- og feðralauna í samræmi við lög um félagslega aðstoð. Enn blasir sama myndin við. Alls fá 2.762 konur mæðralaun en aðeins 109 karlar fá feðralaun. Konur eru 96% þeirra sem annað hvort fá mæðra- eða feðralaun. Þá er athyglisvert að 188 konur fengu barnalífeyri vegna ófeðraðra barna. Hvað skyldi búa þar að baki? Margfalt fleiri konur eru skráðar með börn á framfæri og þurfa að leita sér aðstoðar opinberra aðila en karlar.
Hvað segja þessar tölur okkur um stöðu kvenna annars vegar og karla hinsvegar? Stærri hópur kvenna nær háum aldri en karlar og hlutfallslega mun fleiri aldraðar konur búa við það bág kjör að þær fá heimilisuppbót. Mun fleiri konur eru öryrkjar en karlar og miklu fleiri konur eru með börn á framfæri og með svo lág laun eða lífeyri að þær þurfa heimilisuppbót og/eða mæðralaun. Þess ber að geta hér að Tryggingastofnun sér ekki um meðlagsgreiðslur með börnum en fram kemur að karlar fengu meðlag með 669 börnum konur með 14.335 börnum. Þetta þýðir að 95% þeirra barna sem meðlag er greitt með eru skráð hjá móður sinni. Þetta verða að teljast mjög sláandi tölur sem vekja margar spurningar um ábyrgð á börnum, hjónabönd, sambúð, skilnaði, börn sem fæðast utan hjónabands sem og félags- og efnahagslega stöðu.
Það eru ekki síst tölurnar um öryrkja sem vert er að skoða nánar. Hvaða skýringar eru á því að mun fleiri konur eru öryrkjar en karlar. Samkvæmt tölum Hagstofunnar er verulegur kynjamunur í sumum sjúkdómsflokkum. Hann er mest áberandi hvað varðar stoðkerfissjúkdóma og geðræn vandamál en í báðum þessum flokkum eru konur mun fleiri en karlar. Enn vakna margar spurningar en aftur skortir mjög á rannsóknir. Lág laun, einhæf vinna, margfalt álag vegna starfa utan sem innan heimilis og meginábyrgð á börnum hefur eflaust mikið að segja en fleira kann að koma til. Nýlegar rannsóknir Sigrúnar Sigurðardóttur hjúkrunarfræðings hafa m.a. leitt í ljós að hvers kyns kynbundið ofbeldi ekki síst kynferðisofbeldi hefur miklar andlegar og líkamlegar afleiðingar í för með sér og leiða í mörgum tilfellum til örorku án þess að raunveruleg orsök hafi verið greind. Afleiðingar kynbundins ofbeldis eru dulið heilbrigðisvandamál sem þarf nauðsynlega að greina. Kynbundið ofbeldi er hverju samfélagi gríðarlega dýrt bæði í vanlíðan og beinhörðum peningum. Þá má nefna að víða erlendis er sjónum nú beint að ofbeldi á vinnustöðum sem er ótrúlega algengt en ekkert til umræðu hér á landi.
Margt þarf að skoða þegar horft er yfir íslenska tryggingakerfið. Það verður að ræða hvernig hægt er að fyrirbyggja örorku og bágan hag, einkum kvenna, með margvíslegum úrræðum svo sem menntun, endurhæfingu, atvinnu við hæfi og betri þjónustu við þá sem eiga við andleg og líkamleg veikindi að stríða en þar hallar greinilega á konur.
Á sviði trygginga og heilbrigðismála er verk að vinna og þær tölur sem hér hefur verið fjallað um sýna enn og aftur hve brýnt er að kyngreina tölur og skoða stöðu hvors kyns um sig. Þannig greinum við vandann og finnum leiðir til að leysa hann.
Kristín Ástgeirsdóttir.
Ársskýrsla og staðtölur Tryggingastofnunar 2009