- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins kynnir tillögur um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum á morgunverðarfundi á Reykjavík Hilton Nordica, mánudaginn 24. október næstkomandi kl. 8.00–10.30.
Samhliða kynningu á tillögum aðgerðahópsins mun Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, opna vefsíðu jafnlaunastaðalsins og kynna nýtt jafnlaunamerki. Á fundinum verður jafnframt sagt frá tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðalsins og forystufólk atvinnulífsins tekur þátt í pallborðsumræðum um hvernig hrinda megi tillögum um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum í framkvæmd.
Sérstakur gestur fundarins er dr. Kjersti Misje Østbakken, rannsakandi við Social Research Institute í Osló. Kjersti hefur um árabil lagt stund á rannsóknir á sviði vinnumarkaðsfræða og jafnlaunamála. Í fyrirlestrinum veltir hún upp spurningunni um af hverju gangi eins hægt og raun ber vitni að útrýma kynbundnum launamun. Á árunum 2002–2014 minnkaði launamunur kynjanna aðeins um tvö prósentustig í Noregi; úr 14% í 12% og sýna nýjustu tölur að meðaltímakaup norskra kvenna er svipað og það var hjá körlum fyrir sex árum. Líkt og rannsóknir aðgerðahóps um launajafnrétti sýna segir Kjersti að kynjaskipting starfa á vinnumarkaði skýri að einhverju leyti launamuninn. Konur og karlar gegni ólíkum störfum og kynjaskipting milli starfsgreina sé mjög áberandi í Noregi líkt og á Íslandi. Laun og launaþróun sé mismunandi milli starfsgreina og almennt megi segja að þær greinar sem karlar velja þyki verðmætari á vinnumarkaði. Þegar laun kvenna og karla í sömu atvinnugreinum eru borin saman þá sjáum við að þrátt fyrir sambærilega menntun, aldur og starfsaldur þá eru laun karla samt um 7% hærri.
Verkefni aðgerðahópsins hafa meðal annars falist í því að vinna að samræmingu rannsókna á kynbundnum launamun, annast kynningu og fræðslu vegna innleiðingar jafnlaunastaðals, sinna upplýsingamiðlun og ráðgjöf um launajafnrétti og gerð tillagna um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum. Í maí 2015 kynnti hópurinn niðurstöður rannsóknarverkefna hópsins á fundinum Kyn, starfsframi og laun. Annars vegar er um að ræða fyrstu rannsókn sem gerð hefur verið hér á landi á kynbundnum launamun og tekur til vinnumarkaðarins í heild og hins vegar rannsóknarskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Tillögur hópsins um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum byggjast á niðurstöðum rannsóknarverkefna hópsins.
Morgunverðarhlaðborð er innifalið í þátttökugjaldi sem er 5.000 kr.
Morgunverður er framreiddur frá kl. 8.00.
Skráning á morgunverðarfundinn: radstefna.is
Burt með launamuninn - dagskrá