Dómsmálaráðherra býður til Jafnréttisþings 2025

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra og ráðherra jafnréttismála býður til Jafnréttisþings 2025 sem haldið verður í Hörpu, 22. maí næstkomandi. Þingið ber yfirskriftina Mansal; íslenskur veruleiki – áskoranir og leiðir í baráttunni.

Fyrirlesarar á Jafnréttisþingi koma erlendis frá en Carolina Barrio Peña mun fjalla um mansal, þróun þess sem hugtaks, núverandi stöðu og helstu aðferðir sem reynst hafa árangursríkar í baráttunni gegn því. Carolina er saksóknari og sérfræðingur hjá Refsivörslusamvinnustofnun Evrópusambandsins (e. Eurojust) þar sem hún er situr meðal annars í mansalsteymi.

Þá mun Janna Davidson, talsmaður sænskra stjórnvalda í málefnum mansals og sérfræðingur í aðgerðaþróun hjá sænsku lögreglunni, greina frá reynslu sinni af notkun hins svokallaða norræna líkans í baráttunni gegn kynferðislegri misnotkun og bera saman aðferðir og árangur milli Norðurlandanna.

Að erindum loknum verða pallborðsumræður með fulltrúum helstu sérfræðinga á Íslandi sem komið hafa að málefnum er snerta mansal og þolendur þess.

Dagskránni lýkur á að dómsmálaráðherra veitir sérstaka jafnréttisviðurkenningu.

Öll eru velkomin á Jafnréttisþingið en þátttakendur eru beðnir að skrá sig á skráningarsíðu fundarins.

Aðgengi fyrir hjólastóla er gott og táknmálstúlkun stendur til boða sé þess óskað fyrir 12. maí.