- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa, Velferðarráðuneytið, Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd við HÍ og Rannsóknarmiðstöð gegn ofbeldi við HA efndu til ráðstefnu um kynbundið ofbeldi þann 1.júní sl. sem var mjög vel sótt en rúmlega 100 manns tóku þátt í ráðstefnunni. Sjónum var beint að kynbundnu ofbeldi sem alvarlegu heilbrigðisvandamáli og fólki úr heilbrigðisstéttum var sérstaklega boðið að taka þátt í deginum. Erindi á ráðstefnunni voru í höndum félagsráðgjafa, sálfræðings, læknis og hjúkrunarfræðinga og gáfu þau öll greinargóða mynd af líkamlegum og andlegum einkennum kynbundins ofbeldis og helstu úrræðum auk þess sem klínískar leiðbeiningar um söfnun upplýsinga frá brotaþolum voru kynntar. Umræður í kjölfar ráðstefnunnar voru mjög góðar og voru þátttakendur sammála um að stórauka þarf umræðu milli þeirra aðila sem koma að málum er varða ofbeldi í nánum samböndum og efla fræðslu og endurmenntun fyrir starfsfólk þannig að það viti hvernig það á að spyrja og hvert það getur vísað fólki til að fá úrbót mála sinna.
Mikil áhersla var lögð á að taka upp skipulagðar skráningar í heilbrigðiskerfinu en hingað til hafa mjög margir brotaþolar leitað ítrekað til sérfræðinga án þess að spurt sé um áfallasögu eða hvort þeir búi við eða hafi orðið fyrir ofbeldi.
Erindin má nálgast hér:
Elísabet Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd : Niðurstöður rannsókna og hvað svo?
Sigríður Halldórsdóttir, prófessor við Háskólann á Akureyri: Ofbeldi, konur og mannréttindi
Ólafur Örn Bragason, sálfræðingur hjá Ríkislögreglustjóra og Fangelsismálastofnun, starfar einnig sjálfstætt við mat og meðferð ungra gerenda kynferðisbrota : Börn og unglingar sem sýna skaðlega kynhegðun
Magnús Ólason, læknir á Reykjalundi: Konur, verkir og ofbeldi
Ástþóra Kristinsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarstjóri í Heilsugæslunni Hvammi í Kópavogi: Áhrif heimilisofbeldis á barnshafandi konur, fóstur og börn þeirra.
Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands: Notkun klínískra leiðbeininga við að greina ofbeldi gegn konum í nánum samböndum