- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Í hádegisfyrirlestraröð Rannsóknastofu í vinnuvernd, mánudaginn 26. mars kl. 12 - 13 flytur Gísli Hrafn Atlason erindi.
Fyrirlesturinn verður í Háskóla Íslands, Lögbergi stofu 103.
Gísli Hrafn greinir frá nýlegum niðurstöðum úr rannsókn á samræmingu fjölskylduábyrgðar og atvinnulífs sem Gísli gerði fyrir Jafnréttisstofu. Rannsóknin er hluti af Evrópusambandsverkefni sem Jafnréttisstofa tók þátt í ásamt aðilum frá Danmörku, Ítalíu og Litháen. Rannsóknin byggist annars vegar á viðtölum og hins vegar á spurningakönnun sem gerð var nýverið.
Atvinnuþátttaka á Íslandi er sú mesta í Evrópu. Bæði meðal karla og kvenna. Fæðingatíðni hér á landi er sú næsthæsta í Evrópu. Ísland kemur rétt á eftir Tyrklandi og þetta eru einu þjóðirnar í Evrópu sem rétt ná að halda í mannfjöldann, þ.e.a.s. fjölga sér. Fyrirvinnu-húsmóður skiptingin hefur verið dauð talsvert lengi en það virðist ekki vera fyrr en nú að landsmenn eru að byrja að átta sig á því. Það hljóta að teljast góð tíðindi.
Þetta gengur ekki alveg þrautalaust fyrir sig og tæplega 90% barnaforeldra telja stundum eða oft að ekki sé hægt að samræma vinnu- og fjölskylduábyrgð. Langflestir barnaforeldrar upplifa aukið álag vegna barneigna og við virðumst róa á gamalgróin mið þar sem talsvert fleiri karlar en konur auka við sig vinnu út af auknum útgjöldum vegna barneigna. Á sama tíma minnka talsvert fleiri konur við sig vinnu vegna barneigna og aukinnar ábyrgðar heima fyrir. Nýjum aðstæðum er mætt með gömlum hugmyndum. Það hljóta að teljast vond tíðindi.