Félagsvísindatorg í Háskólanum á Akureyri

Miðvikudaginn 2. október kl. 12.00-13.00 flytur Kristín Ástgeirsdóttir sagnfræðingur og fyrrverandi þingkona Kvennalistans erindið „Öll mál eru kvennamál“ - Kvennalistinn og áhrif hans 1983-1999 á félagsvísindatorgi í stofu M102.
Árið 1983, fyrir réttum 30 árum, voru boðnir fram kvennalistar til Alþingis í þremur kjördæmum. Árið áður komu fram kvennaframboð á Akureyri og í Reykjavík í kosningum til sveitarstjórna sem náðu góðum árangri. Þetta var í annað sinn á 20. öldinni sem íslenskar kvennahreyfingar gripu til þess ráðs að bjóða fram sérlista kvenna í þeim tilgangi að ýta á eftir raunverulegu jafnrétti kynjanna. Kvennalistinn fékk þrjár konur kjörnar á þing og átti fulltrúa á Alþingi til 1999. Enginn flokkur eða hreyfing utan fjórflokksins hefur náð viðlíka árangri hingað til. Hvað vildi Kvennalistinn? Hvers konar hreyfing var hann í flóru stjórnmálanna? Hver var árangurinn og hver urðu endalokin?


Kristín Ástgeirsdóttir er með MA í sagnfræði frá Háskóla Íslands. Hún kenndi sögu í Kvennaskólanum í Reykjavík um árabil. Sat á Alþingi fyrir Kvennalistann 1991-1999, vann við friðargæslu í Kosovo á vegum Sameinuðu þjóðanna 2000-2001, vann við kynjasögurannsóknir og kennslu í Háskóla Íslands 2002-2007. Frá 2007 hefur hún gegnt starfi framkvæmdastýru Jafnréttisstofu á Akureyri. Kristín hefur skrifað fjölda fræðigreina um kvennasögu, einkum um kvennahreyfingar og gömlu kvennaframboðin 1908-1926.


Öll velkomin!