- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Um hundrað manns tóku þátt í kvennasögugöngu á Akureyri í gær og minntust kvenréttindadagsins 19. júní. Kristín Aðalsteinsdóttir fyrrverandi prófessor við HA leiddi göngufólk í fótspor kvenna sem sett höfðu svip sinn á Brekkuna.
Gangan hófst í Lystigarðinum sem stofnaður var 1912 af dönskum konum sem bjuggu á Akureyri þeim Önnu Schiöth og Margrethe Schiöth tengdadóttur Önnu. Anna lærði ljósmyndun í Danmörku og rak ljósmyndastofu í nafni manns síns en á þessum tíma tíðkaðist ekki að konur stæðu í fyrirtækjarekstri.
Við Eyrarlandsstofu fór Kristín yfir ótrúlega sögu Geirþrúðar Tyrrestrup sem bjó á Stóra-Eyrarlandi með manni sínum Magnúsi Thorarensen. Geirþrúður varð ekkja árið 1846 og í kjölfarið sennilega ríkust íslenskra kvenna. Hún var svipt fjárforræði í maí 1856 eftir að tengdasonur hennar, séra Daníel Halldórsson prestur á Glæsibæ og mágur, Oddur Thorerensen lyfsali kvörtuðu yfir ráðlagi og eyðslusemi ekkjunnar.
Úr Lystigarðinum var gengið að Húsmæðraskóla Akureyrar sem settur var í fyrsta sinn í október 1945. Aðdragandann má rekja allt til ársins 1915 þegar félagskonur í Kvenfélaginu Framtíðin hófu umræðuna. Það var þó ekki fyrr en eftir að Alþingi samþykkti lög um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum árið 1941 sem boltinn fór að rúlla. Þegar skólinn hóf starfsemi sína árið 1945 voru námsmeyjarnar 48 og fjölda umsókna var hafnað. Um 1950 dró hins vegar úr aðsókn að skólanum og árið 1955 var ákveðið að einskorða skólahaldið við kvöldnámskeið.
Næst staðnæmdist göngufólk við Þingvallastræti 14 þar sem Kristín sagði frá systrunum Margréti, Ingunni, Ingibjörgu og Elísabetu Eiríksdætrum sem þar bjuggu. Í máli Kristínar kom m.a. fram að Elísabet stofnaði og starfrækti smábarnaskóla frá 1923 til 1958, var bæjarfulltrúi í 19 ár og formaður Verkakvennafélagsins Einingar í rúm 30 ár. Hún var einn af stofnendum Jafnaðarmannafélags Akureyrar árið 1924 og stofnfélagi í Kommúnistaflokki Íslands árið 1930. Ingibjörg var hins vegar kennari við Barnaskóla Akureyrar 1928 til 1960 og virk í Kvenfélaginu Hlíf og Verkakvennafélaginu Einingu. Um tíma var Ingibjörg formaður Sambands norðlenskra kvenna og mæðrastyrksnefndar.
Á móti Þingvallastræti 14 stendur Sundlaug Akureyrar en sinn fyrsta Íslandsmeistara í sundi eignuðust Akureyringar árið 1939. Það var Steinunn Jóhannesdóttir sem sigraði 200 metra bringusund, í Sundhöllinni í Reykjavík, á nýju Íslandsmeti. Í ársbyrjun 1940 átti Steinunn Íslandsmetin í öllum fjórum vegalengdum bringusundsins, 50, 100, 200 og 400 metrum.
Barnaskólinn var næsti viðkomustaður en húsið var vígt og tekið í notkun 18. október 1930. Áður en kennsla hófst í þessu húsi hafði barnaskólinn verið á nokkrum stöðum í bænum, síðast í Hafnarstræti 53. Nokkrar konur höfðu þá komið að skólastarfinu og kennt um lengri eða skemmri tíma. Líklega er Halldóra Bjarnadóttir þekktust þeirra kvenna en hún var skólastjóri 1908-1918. Þegar skólastarfið fluttist í nýja húsið árið 1930 voru fjórar konur í kennaraliði skólans. Það voru Arnfinna Björnsdóttir, Kristbjörg Jónatansdóttir, Ingibjörg Eiríksdóttir og Þórdís Stefánsdóttir.
Leiðin lá síðan niður fyrir Barnaskólann en á svipuðum stað og Akureyrarkirkja stendur í dag starfrækti Elísabet Eiríksdóttir, ein af systrunum í Þingvallastræti 14, barnaleikvöll. Völlurinn var opnaður 1. júní 1928 og starfaði í nokkur ár. Hann var ætlaður börnum á aldrinum 5 til 10 ára og var opinn frá 9 til 18.30. Hugmyndir Elísabetar voru einkum þær að völlurinn væri öruggt athvarf fyrir börn á meðan mæður þeirra væru í vinnu en ekki síður að bjóða uppá uppbyggilegt starf fyrir börnin. Ókeypis var á völlinn en reksturinn var á hendi bæjarins.
Síðasti viðkomustaður göngunnar var efst við Eyrarlandsveg. Þar sagði Kristín göngufólki frá Maríu Flóventsdóttur sem fluttist í Barð árið 1881 með eiginmanni sínum Kristjáni Júlíusi Kristjánssyni. María kom við sögu í tilteknu máli sem var jafnvel talað um sem hneykslismál á þeim tíma. Í mars 1910 á María að hafa falið Friðrik Kristjánsson bankastjóra Íslandsbanka og hjálpað honum að komast í skip til Noregs. Plan Friðriks var að komast til Ameríku en áður hafði hann gert ráðstafanir til að koma fjórum börnum sínum vestur. Á sama tíma og Friðrik sigldi vestur kærði Íslandsbanki hann fyrir fjárdrátt.
María var ein af þessum hvunndagshetjum, hún var forkur til vinnu, vinaföst og gleymdi aldrei greiða. Bankastjórinn ólánssami hafði leyst vandræði hennar eitt sinn og taldi hún það skyldu sína að launa honum greiðann. Hulda Stefánsdóttir segir í æviminningum sínum að hún hafi aldrei heyrt Maríu í Barði álasað fyrir þennan verknað sinn heldur jók það þvert á móti álit margra á henni. Þetta þótti sýna hversu mikil atgervis- og sómakona hún var þessi fátæki kona á Barði.
Það var Jafnréttisstofa sem stóð fyrir göngunni í samstarfi við Héraðsskjalasafnið, Minjasafnið, Akureyrarbæ og Zontaklúbbana á Akureyri. Sérstakar þakkir fá Sportferðir fyrir lán á hljóðkerfi.
Kristínu Aðalsteinsdóttur er þökkuð einstaklega skemmtileg og fræðandi leiðsögn.