Fræðikonan og aðgerðasinninn Vandana Shiva í Háskólabíói

Vandana Shiva sem er heimsþekkt fyrir störf sín í þágu sjálfbærrar þróunar, umhverfis og mannréttinda mun halda opinn fyrirlestur kl. 17 þann 29. ágúst nk. í Háskólabíói. Vandana Shiva er einn af þekktustu talsmönnum umhverfisfemínisma í heiminum og lítur svo á að kapítalisminn og feðraveldið séu tengd órjúfanlegum böndum, þ.e. að það sé sama menning sem viðhaldi yfirráðum karla í samfélaginu og sem stuðlar að ofnýtingu náttúrunnar og umhverfisspjöllum stórfyrirtækja.
Fyrirlestur hennar er öllum opinn án endurgjalds.Vandana Shiva gaf út bókina Staying Alive: Women, Ecology and Development árið 1988, sem hafði mikil áhrif á hugmyndir fólks um konur í þróunarríkjunum, en í bókinni fjallar Vandana Shiva um baráttu kvenna í þróunarríkjum fyrir verndun umhverfisins. Í bókinni fjallar hún meðal annars um indversku umhverfisverndarhreyfinguna Chipko, sem var að miklu leyti skipuð konum og barðist ekki síst gegn ofnýtingu skóga, en Vandana Shiva var sjálf þátttakandi í hreyfingunni á 8. áratugnum. Vandana Shiva skrifaði einnig grundvallarrit um umhverfisfemínisma, Ecofeminism, ásamt Mariu Mies árið 1993.

Vandana Shiva hefur unnið ötullega að því að auka áhrif kvenna í landbúnaði og hefur m.a. skrifað skýrslu fyrir Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna um konur og landbúnað á Indlandi, þar sem hún vakti athygli á því að flestir bændur á Indlandi væru konur og því væru málefni kvenna og málefni landbúnaðarins nátengd. Hún var einnig meðal stofnenda alþjóðlegu samtakanna „Women´s Environment and Development Organization (WEDO)“. Hún er mikill talsmaður lífræns landbúnaðar og er einn atkvæðamesti gagnrýnandi erfðabreytinga á nytjaplöntum í heiminum, auk þess sem hún hefur beitt sér gegn því að fjölþjóðleg iðnaðarfyrirtæki nái yfirráðum yfir matvælaframleiðslu og gegn einkavæðingu vatns.

Vandana Shiva hefur birt yfir 500 vísindagreinar, skrifað 20 bækur og haldið fyrirlestra víða um heim. Fyrir störf sín hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga, m.a. hin svokölluðu „Alternative Nobel Prize“,eða Right Livelihood Award.

Boðskort á fyrirlesturinn og nánari upplýsingar er að finna íþessum bæklingi