Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur gert samkomulag við Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum um að setrið annist útgáfu og dreifingu á kynningarefni um ofbeldi gegn fötluðum konum og hvert fatlaðar konur geti sótt stuðning hafi þær sætt ofbeldi. Til verkefnisins verður varið 1,8 milljónum króna.
Í samkomulaginu felst að Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum annast prentun bæklinga og skýrslna sem gerð voru í tengslum við rannsóknarverkefnið: Ofbeldi gegn fötluðum konum og aðgengi þeirra að stuðningsúrræðum (Access to specialised victim support services for women with disabilites who have experinced violence). Verkefnið var unnið í samstarfi við rannsóknarstofnanir og háskóla í Austurríki, Þýskalandi og Bretlandi, og var styrkt af Daphne III áætlun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Rannsóknin var tvíþætt og náði bæði til fatlaðra kvenna og fólks sem hefur starfað með þolendum ofbeldis.
Skýrslunum verður dreift til opinberra stofnanna sem koma að þjónustu við fatlað fólk og bæklingar sendir víðsvegar um landið, s.s. til félagsþjónustu sveitarfélaga, heilsugæslustöðva, lögreglustöðva, íþróttafélaga og víðar þar sem fatlað fólk sækir þjónustu eða tekur þátt í félagsstarfi.
Jafnframt verða hönnuð tvö veggspjöld sem annars vegar eru ætluð til vekja almenning til vitundar um ofbeldi gegn fötluðum konum og hins vegar með upplýsingum um eðli ofbeldis gegn fötluðum konum og hvert konur geta leitað eftir stuðningi. Veggpjöldunum verður dreift á staði þar sem fatlaðar konur sækja þjónustu eða félagsskap.