- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þann þriðja júní 2020 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025. Þar er lögð megináhersla á að forvarnir verði samþættar kennslu og skólastarfi á öllum skólastigum, á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, í íþrótta- og æskulýðsstarfi og öðru tómstundastarfi með það að marki að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og lágmarka skaðann af slíkri háttsemi.
Jafnréttisstofa ber ábyrgð á tveimur aðgerðum í aðgerðaráætluninni þar sem áherslan er annars vegar á fræðslu um kynferðislega friðhelgi, einkum um eðli og afleiðingar stafræns kynferðisofbeldis, og hins vegar á gildi kynjafræðikennslu í framhaldsskólum, þar á meðal um gildi þess að gera kynjafræði að skyldufagi, og miðar framkvæmd þeirra vel.
Nú þegar gildistími þingsályktunarinnar er hálfnaður er tæplega helmingi aðgerða lokið og um 30% komnar vel á veg. Eftirfylgni með framkvæmd aðgerða er í höndum stýrihóps á vegum Forsætisráðuneytisins þar sem eiga sæti fulltrúar frá Jafnréttisstofu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Barna- og fjölskyldustofu, Embætti landlæknis, Menntamálastofnun og Menntamálaráðuneytinu, auk forsætisráðuneytisins, sem heldur úti mælaborði um stöðu aðgerða í áætluninni. Á mælaborðinu má finna stöðu allra 26 aðgerða þingsályktunarinnar og er vinna hafin við þær allar, þar af telst 11 aðgerðum vera lokið og vinna við átta komin vel á veg.
Mælaborðið og upplýsingar um aðgerðir og stöðu þeirra má finna á heimasíðu Stjórnarráðsins.