- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna heyrir undir Efnahags- og félagsmálaráð SÞ (ECOSOC) og er markmið hennar að vinna að auknu jafnrétti karla og kvenna. Sú venja hefur skapast meðal Norðurlandaþjóðanna að eitt þeirra á þar ávallt sæti og tók Ísland sæti í nefndinni árið 2004. Svíar munu taka við keflinu af Íslendingum þegar fundinum lýkur 7. mars.
Utanríkisráðherra flytur ræðu á ráðherrafundi kvennanefndarinnar í dag og mun einnig taka þátt í hringborðsumræðum um reynsluna af jafnréttisbaráttunni, hvaða leiðir hafi gefist vel og hverjar síður. Í ræðu sinni mun Ingibjörg Sólrún leggja áherslu á jafnréttismál sem eitt af lykilatriðum íslenskrar utanríkisstefnu og málefni þar sem styrkleiki Íslands á alþjóðavettvangi liggi. Einnig mun hún kynna þróunarverkefni Íslendinga sem miða að því að bæta stöðu kvenna víðs vegar um heim.
Þá standa Norðurlöndin fyrir sameiginlegum hliðarviðburði þar sem fjallað verður um ráðstafanir til að berjast gegn ofbeldi karla gagnvart konum, heiðurstengt ofbeldi og ráðstafanir til að berjast gegn mansali. Ráðherra flytur þar ávarp og fjallar um hvað hefur verið gert til að koma í veg fyrir ofbeldi gagnvart konum á Íslandi.
Ísland verður svo í kastljósinu miðvikudaginn 27. febrúar þegar Stígamót, Kvenréttindafélag Íslands og UNIFEM standa fyrir íslenskum hliðarviðburði sem kallast Gróska, kraftur, ánægja og fjallar um hvernig Íslendingar efli konur til dáða, um stöðu innflytjendakvenna og um óvenjulega sýn á fegurðina en heimildarmynd Matthildar Helgadóttur, Óbeisluð fegurð verður sýnd. Ennfremur mun Kristín Ástgeirsdóttir, forstöðukona Jafnréttisstofu kynna tilhögun feðraorlofs á Íslandi í umræðum á miðvikudag.
Samkvæmt fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.