- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Tvisvar á ári heldur Jafnréttisstofa rafrænan þemafund þar sem ólíkum markhópi starfsfólks ásamt kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna er boðið. Í gær fór seinni fundur ársins fram og var þar fjallað um hin svokölluðu EKKO mál, þ.e. einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundið áreiti og annað ofbeldi.
Til að fjalla um þessi mál fengum við til okkar sérfræðinga frá Vinnueftirlitinu. Sara Hlín Hálfdánardóttir hefur stýrt sérstöku EKKO verkefni hjá Vinnueftirlitinu síðustu ár, þar sem fræðslumyndbönd, stoðefni og vitundarvakningar um málefnið hafa verið framleidd. Allt efnið má nálgast á heimasíðu Vinnueftirlitsins. Einnig sagði Eggert Páll Einarsson hópnum frá hvernig eftirlitinu er háttað og hvað þyrfti að hafa í huga varðandi sálfélagslegt áhættumat. Þau komu bæði inn á mikilvægi þess að huga að hinum sálfélagslega þætti í vinnustaðaöryggi. Meðal þess sem kom fram er að sálrænt öryggi er kjarnaþáttur í því hvernig hægt er að búa til góðan vinnustað þar sem ríkja traust og opin samskipti og þannig tekur fólk meiri ábyrgð, bæði á sjálfum sér og öðrum í umræðum og athöfnum. Einnig var lögð áhersla á það fordæmi sem stjórnendur setja á vinnustað, hljóð og mynd þurfa að fara saman, hegðun þeirra á að endurspegla þau gildi sem hafa verið sett. Engu að síður er vinnustaðamenning lifandi mannlegt fyrirbæri á ábyrgð allra á vinnustaðnum.
Fyrri þemafundur þessa árs fjallaði um jafnrétti í skólastarfi, þar fjallaði Kristín Blöndal kennari í Lækjarskóla um staðalímyndir í tengslum við orðræðu, námsefni og stafrænan heim og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisskólans kynnti verkefni skólans.
Rafrænu þemafundirnir hafa verið mjög vel sóttir og verður næsti fundur haldinn á vordögum 2025.