Fyrri rafræni þemafundur ársins fyrir sveitarfélög fór fram í dag. Yfirskrift fundarins var Vinna gegn ofbeldi er lífsspursmál. Til að fjalla um þetta mikilvæga mál fengum við til okkar Halldóru Dýrleifar Gunnarsdóttur, sérfræðing í jafnréttismálum og verkefnisstjóra Saman gegn ofbeldi hjá mannréttinda- og lýðræðisskrifsstofu Reykjavíkurborgar.
Halldóra fjallaði meðal annars um aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi og mikilvægi þess að hafa tölfræðigögn til að byggja á við vinnuna. Hún fór yfir þau gögn sem Reykjavíkurborg safnar saman reglulega varðandi ofbeldi sem eru m.a. fjöldi útkalla lögreglunnar og Reykjavíkurborgar eftir kyni gerenda og eftir kyni brotaþola, tegund ofbeldis eftir kyni brotaþola, fjöldi kvenna í Kvennaathvarfinu og fleira.
Hún fjallað einnig um mikilvægi þess að skoða aðra hópa og kynjaða tölfræði innan þeirra, má þar nefna fatlað fólk, aldraða, börn, innflytjendur og hinsegin fólk. Reykjavíkurborg hefur þetta að leiðarljósi hjá sér þar sem jaðarsettir hópar eru í meiri hættu að verða fyrir ofbeldi.
Til þess að vinna gegn ofbeldi skili árangri skiptir máli að gott samstarf sé milli ólíkra aðila samfélagsins, svo sem sveitarfélaga, stofnana og félagasamtaka. Einnig skiptir máli að nýta þekkingu fagfólks og að kjörnir fulltrúar skilji mikilivægi málaflokksins. Halldóra lagði mikla áherslu að öll getum við lagt okkar að mörkum til að koma í veg fyrir ofbeldi og taka þátt í vinnunni við að skapa samfélag þar sem ofbeldi er ekki liðið. Hugrakkt fólk sem stígur fram og segir sína sögu hjálpar okkur til að sjá og skilja mikilvægi þess að standa saman.
Tvisvar á ári heldur Jafnréttisstofa rafrænan þemafund þar sem ólíkum markhópi starfsfólks ásamt kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna er boðið. Fundirnar hafa verið vel sóttir og verður næsti fundur í haust.