Gallup kannar vinnuskipti fyrir Jafnréttisráð

Í apríl og maí síðastliðnum kannaði Gallup fyrir Jafnréttisráð, tíðni og ástæður vinnuskipta karla og kvenna. Niðurstöður könnunarinnar eru aðgengilegar hér.
Samkvæmt jafnréttislögum á Jafnréttisráð ,,að stuðla markvisst að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á vinnumarkaðinum?. Á undanförnum árum hefur ráðið nokkrum sinnum látið framkvæma fyrir sig kannanir á ákveðnum þáttum vinnumarkaðsmála.

Í apríl og maí síðastliðnum kannaði Gallup fyrir ráðið tíðni og ástæður vinnuskipta karla og kvenna. Ástæða þess að ráðið vildi láta kanna þetta atriði er m.a. að því hefur verið haldið fram að ein af ástæðunum fyrir tekjumun karla og kvenna sé að karlar verðleggi sig hærra en konur þegar kemur að samningum um kaup og kjör og séu fúsari til að skipta um störf í þeim tilgangi að auka tekjur sínar. Jafnframt hefur verið bent á að konur séu mun líklegri en karlar til að miða hegðun sína á vinnumarkaði við ábyrgð sína gagnvart heimili og fjölskyldu og það geti stuðlað að veikari stöðu á vinnumarkaði.

Helstu niðurstöður þessarar könnunar Gallup eru þær að heldur fleiri karlar en konur voru að leita sér að starfi eða 12% karla og 8% kvenna. Á hinn bóginn er ekki marktækur munur milli kynja á því hvort skipt hafi verið um vinnuveitanda á síðastliðnum tveimur árum. Þegar kemur að ástæðum fyrir því að verið er að leita að nýju starfi er ekki marktækur munur á kynjunum en á hinn bóginn er marktækur munur á ástæðum þeim sem gefnar eru fyrir skiptum á vinnuveitanda á síðastliðnum tveimur árum. Rétt tæplega helmingi fleiri karlar en konur hafa misst fyrri vinnu og um helmingi fleiri karlar en konur gefa ,,tilbreytingu? upp sem ástæðu. Ríflega þrisvar sinnum fleiri konur en karlar nefna fjölskylduábyrgð sem ástæðu fyrir skiptum á vinnuveitanda og tæplega helmingi fleiri karlar en konur nefna ,,hærri laun/launatengt?.

Könnunin virðist því staðfesta að fjölskylduábyrgð hafi meiri áhrif á vinnumarkaðsstöðu kvenna en karla og að karlar skipti frekar en konur um vinnu vegna launamála. Auðvitað má hugsa sér að sóknin í hærri laun sé líka tengd fjölskyldustöðu hjá körlunum. Það er jafnframt athyglisvert að ef sérstaklega er skoðaður hópurinn á aldrinum 25-64 ára þá minnkar verulega kynjamunurinn varðandi áherslur á launamál en eykst þegar kemur að fjölskylduábyrgð.

Einnig var í þessari könnun spurt um tíma varið til heimilisstarfa og launavinnu og kemur ekki á óvart að þar er verulegur kynjamunur. Konur verja mun meiri tíma en karlar til heimilisstarfa en karlar á hinn bóginn mun meiri tíma í launavinnu en konur.

Könnun er aðgengileg hér. 

Nánari upplýsingar veitir formaður Jafnréttisráðs Fanný Gunnarsdóttir. Sími: 8981709