Góð þátttaka í hátíðardagskrá og samstöðu á Akureyri

Fjölmenni var á hátíðardagskrá í tilefni af lokadegi 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi og degi Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna á Akureyri í gær.Meðal þeirra sem fluttu erindi á hátíðardagskránni var Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, höfundur bókarinnar "Á mannamáli" en Þórdís var í vikunni tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir þessa bók sem fjallar um kynbundið ofbeldi.
 
Sigrún Stefánsdóttir, formaður félagsmálaráðs Akureyrarbæjar kynnti fyrstu aðgerðaáætlun bæjarins gegn heimilis- og kynferðisofbeldi og Kristín Ástgeirsdóttir,framkvæmdastýra Jafnréttisstofu flutti erindi um Kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna í tilefni þess að þann 18. desember n.k. verður hann 30 ára.
 
Nemendur í MA tóku virkan þátt í dagskránni, en nemendur í 2. bekk hafa unnið verkefni í tengslum við 16 daga átakið.

Að erindum loknum var haldið í kyndlagöngu niður á Ráðshústorg þar sem u.þ.b. 130 manns tóku höndum saman í samstöðu gegn kynferðisofbeldi. Á Ráðhústorgi var sungið saman og höfðu veitingahús, kaffihús og bakarí í bænum ákveðið að styðja átakið með því að framreiða súpu, kakó og kökur á torginu.