Góður fundur um jafnréttismál á Ísafirði

Fyrsti fundur Jafnréttisstofu á ferð um landið fór fram á Ísafirði síðastliðinn fimmtudag. Fundurinn var vel sóttur og voru gestir fundarins mjög áhugasamir um jafnréttismál og ný lög um jafnan rétt og jafna stöðu kynjanna. Fundargestir höfðu mikinn áhuga á hlutverki Jafnréttisstofu og stöðu einstaklinga á vinnumarkaði hvað varðar ráðningar, jafnréttisáætlanir og launaleynd. Starfsfólk Jafnréttisstofu fundaði einnig með Félagsmálanefnd Ísafjarðarbæjar og starfsfólki Fjölmenningarseturs.
 
Vel var tekið á móti starfsfólki Jafnréttisstofu og farið í kynnisferð um Háskólasetur Vestfjarða og stofnanir eins og Hafrannsóknastofnun, Matís, Snjóflóðasetur, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og fleiri.

Næsti fundur Jafnréttisstofu verður á Hótel Héraði á Egilsstöðum 10. september klukkan 17, en alls verða haldnir sex opnir fundir.